Erlent

Wein­stein á­kærður fyrir nauðgun og önnur kyn­ferðis­brot í Los Angeles

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Harvey Weinstein í New York í dag þar sem hófust réttarhöld yfir honum.
Harvey Weinstein í New York í dag þar sem hófust réttarhöld yfir honum. vísir/epa

Saksóknarinn í Los Angeles hefur ákært Harvey Weinstein fyrir kynferðisbrot gegn tveimur konum.  

Weinstein, sem var kvikmyndaframleiðandi og lengi vel einn valdamesti maður í Hollywood, er ákærður fyrir nauðgun gagnvart einni konu og kynferðisbrot gagnvart annarri. Brotin eiga að hafa verið framin á tveimur dögum árið 2013.

Fyrra brotið á að hafa verið framið þann 18. febrúar 2013. Þá nauðgaði Weinstein konu eftir að hafa ýtt henni inn á hótelherbergi, að sögn saksóknara. Kvöldið eftir er talið að hann hafi brotið kynferðislega gegn annarri konu á hótelsvítu í Beverly Hills.

Bæði Weinstein og lögmenn hans hafa ítrekað neitað öllum ásökunum um saknæmt athæfi en afstaða hans til ákæranna í Los Angeles liggur ekki fyrir.

Verði Weinstein fundinn sekur gæti hann átt allt að 28 ára fangelsisdóm yfir höfði sér. Hann mun koma síðar fyrir dóm í Los Angeles og svara til saka. Ákæruvaldið mælist til þess að trygging hans fyrir því að geta gengið laus á meðan málið er til meðferðar verði fimm milljónir Bandaríkjadala.

Saksóknarinn í Los Angeles greindi frá ákærunni í dag, sama dag og réttarhöldin í máli New York-ríkis gegn Weinstein hófust fyrir ríkisdómstól á Manhattan.

Þar er Weinstein ákærður fyrir að hafa nauðgað tveimur konum en fleiri tugir kvenna hafa undanfarin tvö ár sakað Weinstein um kynferðisofbeldi.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×