Fjölskylda Don Lewis, sem hvarf árið 1997, hefur höfðað mál gegn fyrrverandi eiginkonu hans, Carole Baskin. Fjölskyldan hefur einnig boðið hundrað þúsund dala verðlaun fyrir upplýsingar um hvað kom fyrir Lewis. Mikill áhugi kviknaði aftur á hvarfi Lewis eftir að þættirnir vinsælu Tiger King voru sýndir á Netflix í byrjun ársins.
Þættirnir fjölluðu að mestu um deildur Baskin og Joseph Maldonado-Passage, sem einnig er þekktur sem Joe Exotic, en hann hélt því ítrekað fram að hún hefði myrt eiginmann sinn.
Joe Exotic, sem nú afplánar fangelsisdóm fyrir að hafa reynt að fá leigumorðingja til að ráða áðurnefnda Baskin af dögum, eyddi stórum hluta ferils síns sem eigandi „framandi dýragarðs“ í að áreita Baskin í illdeilum sem sjást vel í heimildaþáttunum Tiger King. Exotic hélt því statt og stöðugt fram, í mörg ár, að Baskin hefði orðið fyrrum eiginmanni sínum, Don Lewis, að bana.
Lewis hvarf degi áður en hann ætlaði að fara til Costa Rica og var lýstur látinn árið 2002. Hann og Baskin voru enn gift en hann hafði þó fengið nálgunarbann gagnvart henni tveimur mánuðum áður en hann hvarf.
Baskin hefur ítrekað neitað því að hafa orðið eiginmanni sínum að bana.
Samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar frá blaðamannafundi fjölskyldu Lewis í gær þakkaði Gale Rathbone, yngsta dóttir hans, fyrir hinn aukna áhuga á hvarfinu. Hún sagði að þó faðir hennar hafði ekki verið fullkominn, ætti hann samt rétt á réttlæti.
Lögmaður fjölskyldunnar segir markmiðið með því að höfða mál gegn Baskin vera að fá hana til að svara spurningum fyrir dómi.
Í yfirlýsingu frá Baskin segist hún ekki ætla að tjá sig að svo stöddu.