Erlent

Sleginn yfir því að tapa dýra­garðinum í hendur erki­ó­vinarins

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Joe Exotic og Carole Baskin áttu í áralöngum deilum. Exotic afplánar nú fangelsisdóm fyrir að hafa reynt að láta ráða Baskin af dögum.
Joe Exotic og Carole Baskin áttu í áralöngum deilum. Exotic afplánar nú fangelsisdóm fyrir að hafa reynt að láta ráða Baskin af dögum. Netflix

Joseph Maldonado-Passge, betur þekktur sem Joe Exotic, er í hæsta máta óánægður með að Carole Baskin, erkióvinur hans og forstjóri dýraverndunarsamtakanna Big Cat Rescue, hafi fengið yfirráð yfir dýragarði sem eitt sinn var í eigu Exotic. Hann segir um að ræða „launráð“ sem verði að stöðva.

Dómari úrskurðaði í byrjun vikunnar að Baskin skyldi eignast dýragarðinn auk eigna tengdum honum. Þau Joe Exotic og Baskin urðu heimsfræg á einni nóttu eftir að heimildaþáttaröðin Tiger King, sem fjallar um ævi, störf og ástir tígrisdýrahirða í Bandaríkjunum, var frumsýnd á Netflix fyrr á árinu.

Exotic afplánar nú fangelsisdóm fyrir að hafa reynt að fá leigumorðingja til að ráða áðurnefnda Baskin af dögum. Hann segir í yfirlýsingu sem birt var fyrir hans hönd í fyrradag að úrskurður dómarans sé „enn eitt tilfinningalega höggið“ sem ríður yfir hann, mann sem „þegar er í viðkvæmu ástandi“. Exotic hafi verið í einangrun í fangelsi síðastliðna þrjá mánuði og geti þannig ekki haldið uppi málsvörn.

„Við erum meðvituð um nú sé tímabært að biðja fyrir réttlæti fyrir fjölskyldu George Floyd, sem og að bundinn verði endi á kerfisbundna kynþáttafordóma, en á sama tíma verðum við að svara fyrir launráð Carol Baskin áður en þau ná óhindruð fram að ganga,“ segir í yfirlýsingunni.

„Þó að þessar fréttir séu þungbærar ætlum við ekki að sætta okkur við ósigur. Á sama tíma og þessi skilaboð eru rituð er lögmannateymi Joe að fara fram á áfrýjun og samfélagsmiðlateymi hans fær almenning með okkur í lið.“

Forsaga málsins er sú að Baskin stefndi Joe Exotic fyrir brot á höfundarréttarlögum árið 2013. Svo fór að Exotic var gert að greiða Baskin tæpa milljón Bandaríkjadali. Hann reiddi þó upphæðina aldrei fram.

Jeff Lowe, auðmanni sem bregður einnig fyrir í þáttunum og farið hefur með rekstur dýragarðsins síðan Exotic var dæmdur í fangelsi, hefur með dómsúrskurðinum verið gert að fjarlægja öll dýr úr garðinum innan 120 daga.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.