Erlent

Vísindamenn segja erfitt að treysta bóluefni Rússa

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Vladimír Pútín er forseti Rússlands.
Vladimír Pútín er forseti Rússlands. AP/Alexei Nikolskí/Spútnik

Vísindamenn eru sumir hverjir undrandi yfir tilkynningu Vladimírs Pútín Rússlandsforseta um það að heilbrigðisyfirvöld í landinu hafi lagt blessun sína yfir bóluefni gegn kórónuveirunni sem þróað var í Rússlandi.

Reuters fjallar um málið og ræddi við þrjá vísindamenn í kjölfar tilkynningar Rússlandsforseta í dag en þar kom meðal annars fram að til standi að hefja fjöldaframleiðslu á efninu. 

Í rétt AP í morgun kom fram að margir vísindamenn, bæði í Rússlandi og annars staðar, hafi verið með efasemdir þar sem yfirleitt þurfi umfangsmeiri prófanir sem ná til fleiri og yfir lengri tíma, áður en bóluefni er skráð.

Í frétt Reuters er rætt við Ayfer Ali, sérfræðing í lyfjarannsóknum við Warwick Business School í Bretlandi. Segir að hún að ef til standi að hefja fjöldabólusetningu í Rússlandi séu yfirvöld þar í raun að hefja umfangsmikla tilraun á íbúum landsins.

Án þess að prófa bóluefnið ítarlega áður geti mögulegar aukaverkanir farið framhjá læknum og rannsakendum, auk þess sem að mögulegar aukaverkanir geti verið alvarlegar, en þó mögulega sjaldgæfar.

Francois Balloux, sérfræðingir hjá University College í London tekur undir með Ali. Segir hann að ákvörðun Rússa sé ekki bara ábyrgðarlaus, heldur einnig hættuleg.

Fjöldabólusetning með vanprófuðu bóluefni sé algjörlega í bága við siðareglur auk þess sem að möguleg vandamál tengd bóluefninu gætu valdið heilsufarsvandamálum, auk þess sem það gæti ýtt undir almenna vantrú á virkni bóluefna.

Undir þetta tekur Danny Altmann, prófessor í ónæmisfræði við Imperial College í London. Segir hann í samtali við Reuters að vanprófuðu bóluefni geti fylgt vandamál sem muni bara auka vandræðin sem nú þegar hefur fylgt kórónuveirufaraldrinum.


Tengdar fréttir

Hafa áhyggjur af bóluefni Rússa

Til stendur að hefja umfangsmiklar bólusetningar gegn Covid-19 í Rússlandi í október með bóluefni sem hefur ekki enn verið farið í gegnum tilraunir sem tryggja eiga öryggi þess og virkni.

Hyggjast byrja að bólu­setja í októ­ber

Yfirvöld heilbrigðismála í Rússlandi stefna á að byrja að bólusetja fólk í landinu fyrir kórónuveirunni í þar næsta mánuði. Kennarar og læknar yrðu bólusettir fyrst.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×