Fótbolti

Leikjum mótherja KR frestað vegna „heimskupara“ leikmanns

Sindri Sverrisson skrifar
Boli Bolingoli verður hugsanlega í agabanni þegar Celtic mætir KR, ef leikurinn fer á annað borð fram.
Boli Bolingoli verður hugsanlega í agabanni þegar Celtic mætir KR, ef leikurinn fer á annað borð fram. SAMSETT/GETTY/BÁRA

Leikmaður skoska meistaraliðsins Celtic varð uppvís að alvarlegu broti á sóttvarnareglum. Liðið mun af þeim sökum ekki spila tvo leiki sem það átti að spila fyrir viðureignina við Íslandsmeistara KR í næstu viku.

Celtic á að taka á móti KR í forkeppni Meistaradeildar Evrópu í fótbolta eftir slétta viku. Ekki liggur hins vegar ljóst fyrir nákvæmlega hvernig skosku meisturunum verður refsað eftir að varnarmaðurinn Boli Bolingoli skaust til Spánar í leyfisleysi og spilaði svo í skosku úrvalsdeildinni á sunnudag, án þess að fara í sóttkví.

Næst fer rauða spjaldið á loft

Nicola Sturgeon, forsætisráðherra heimastjórnar Skotlands, sagði í dag ljóst að fólk ætti ekki að búast við því að sjá leiki með Celtic á næstu dögum. Hið sama gildir um Aberdeen eftir að átta leikmenn liðsins fóru saman á knæpu.

„Lítið á daginn í dag sem gula spjaldið. Næst getum við ekki annað en lyft rauða spjaldinu,“ sagði Sturgeon.

Celtic átti að mæta St Mirren á morgun og svo Aberdeen um helgina, en leikurinn við KR er næsta þriðjudag.

Erfitt að ímynda sér meira ábyrgðarleysi

Sturgeon hefur nú krafið skoska knattspyrnusambandið um skýrar reglur um það hvernig leikmönnum sem brjóti sóttvarnareglur verði refsað. Enn kemur til greina að fresta fleiri leikjum og ekki er útilokað að öllum leikjum helgarinnar verði frestað í Skotlandi.

Celtic og Bolingoli hafa beðist afsökunar á framferði leikmannsins.

„Það er erfitt að ímynda sér meira ábyrgðarleysi en sýnt var við þessar aðstæður, og við getum hreinlega ekki útskýrt þetta. Félagið mun strax bregðast við með sínum agareglum,“ sagði í yfirlýsingu frá Celtic. Þar sagði janframt að allir leikmenn og starfslið Celtic hefðu farið í tvær skimanir eftir að upp komst um brot Bolingoli og öll próf hefðu reynst neikvæð. Það afsaki þó á engan hátt „heimskupör“ hans.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.