Fótbolti

Blikar gætu fengið sigur eða undanþágu til að komast til Noregs

Sindri Sverrisson skrifar
Breiðablik leikur í forkeppni Evrópudeildar eftir að hafa orðið í 2. sæti í Pepsi Max-deildinni í fyrra.
Breiðablik leikur í forkeppni Evrópudeildar eftir að hafa orðið í 2. sæti í Pepsi Max-deildinni í fyrra. VÍSIR/VILHELM

Leikmenn Breiðabliks gætu þurft að fá undanþágu frá sóttvarnareglum í Noregi til að mæta þar liði Rosenborg. Fáist sú undanþága ekki gæti Blikum verið úrskurðaður sigur, 3-0.

Breiðablik dróst í gær gegn Rosenborg í 1. umferð forkeppni Evrópudeildar karla í fótbolta. Síðar í gær lagði landslæknisembættið í Noregi svo til að að Ísland yrði ásamt fleiri löndum sett á rauðan lista í Noregi, sem myndi þýða að íslenskir ferðamenn þyrftu að fara í tíu daga sóttkví við komu til Noregs.

UEFA, knattspyrnusamband Evrópu, breytti tilhögun forkeppni Evrópudeildarinnar vegna kórónuveirufaraldursins og er því aðeins leikinn einn leikur í hverju einvígi, en ekki heima- og útileikur. Dregið var um hvort leikur Rosenborg og Breiðabliks færi fram í Noregi eða á Íslandi.

Í sérstakri reglugerð vegna Evrópuleikja á tímum faraldursins setur UEFA ábyrgðina á að leikir geti farið fram í hendur heimaliðsins. Það er því á ábyrgð Rosenborg að tryggja að leikurinn við Breiðablik geti farið fram, og Blikar þurfa ekki að mæta fyrr til Noregs en tveimur dögum fyrir leikinn sem fram á að fara 27. ágúst.

„Við teljum allar líkur á að leikurinn fari fram á Lerkendal [heimavelli Rosenborg],“ segir Sigurður Hlíðar Rúnarsson, deildarstjóri knattspyrnudeildar Breiðabliks, við Vísi.

Leikið í öðru landi eða Blikum úrskurðaður sigur?

Rosenborg gaf Lerkendal upp sem heimavöll fyrir leikinn í svari til UEFA, sem veita varð innan við sólarhring eftir dráttinn í gær. Sá möguleiki er til staðar að leikurinn verði færður á hlutlausan völl í landi utan Noregs, en ef leikurinn getur ekki farið fram verður Breiðabliki úrskurðaður 3-0 sigur og liðið kemst áfram í næstu umferð.

„Við eigum símafund með forráðamönnum Rosenborg á morgun og viljum gefa þeim svigrúm til að skoða þessi mál. Við búum okkur undir að spila í Noregi,“ segir Sigurður.

Fá 6,4 milljónir vegna ferðalags og verða að fara í próf

UEFA veitir gestaliðum sérstakan styrk upp á 40.000 evrur, jafnvirði 6,4 milljóna króna, til að ferðast í leiki. Ekki veitir af en íslensku liðin (auk Breiðabliks eru það KR og Víkingur R.) þurfa að leigja sér flugvélar til að komast í sína Evrópuleiki.

Blikar áætla að fljúga til Noregs 25. ágúst og heim aftur á leikdegi, tveimur sólarhringum síðar. Samkvæmt reglum UEFA þurfa allir sem ferðast í leikinn að fara í kórónuveirupróf áður en flogið er af stað. Miðað við núgildandi reglur þyrftu Blikar ekki að fara í sóttkví við komuna aftur til Íslands frá Noregi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×