Íslenski boltinn

Þórólfur leggur til að hópíþróttir hefjist að nýju

Sindri Sverrisson skrifar
Fótbolti er leikur með snertingu og hefur ekki mátt iðka íþróttina hér á landi síðustu ellefu daga.
Fótbolti er leikur með snertingu og hefur ekki mátt iðka íþróttina hér á landi síðustu ellefu daga. VÍSIR/BÁRA

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hyggst leggja það til í minnisblaði til heilbrigðisráðherra að íþróttir með snertingu verði leyfðar að nýju.

„...Það er líka til skoðunar að leyfa íþróttir með snertingu að hefjast aftur. Það myndi þá koma fram í minnisblaðinu,“ sagði Þórólfur á upplýsingafundi vegna kórónuveirufaraldursins í dag. 

Ekki hefur verið leyft að spila fótbolta eða aðrar íþróttir með snertingu hér á landi frá 31. júlí, vegna nýrrar bylgju veirusmita, en nú virðist vera að rofa til.

„Varðandi knattspyrnuna þá stöðvuðum við hana núna á meðan að þessi faraldur var í uppsveiflu og við vissum ekki í hvaða átt hann var að fara. Eins og við höfum alltaf sagt þá erum við að skerpa á reglunum þegar í harðbakkann slær og við munum slaka á þeim þegar við sjáum að það sé að ganga yfir, og það er það sem er að gerast núna,“ sagði Þórólfur.

Ekki er ljóst nákvæmlega hvenær hægt verður að byrja að spila fótbolta að nýju hér á landi en KSÍ hefur frestað öllum leikjum sem settir höfðu verið á fram til 13. ágúst. Næstu leikir á dagskrá, sem ekki hefur verið frestað enn sem komið er, eru á dagskrá á föstudag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×