Enski boltinn

Sendir gömlu kærustunni skilaboð í hverju fagni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hringdu í mig. Gabriel Jesus sendir gömlu kærustunni í Brasilíu skilaboð í hverju fagni nú þegar hann lifir ljúfa lífinu sem leikmaður Manchester City.
Hringdu í mig. Gabriel Jesus sendir gömlu kærustunni í Brasilíu skilaboð í hverju fagni nú þegar hann lifir ljúfa lífinu sem leikmaður Manchester City. Getty/Simon Stacpoole

Brasilíumaðurinn Gabriel Jesus verður í sviðsljósinu hjá Manchester City í úrslitakeppni Meistaradeildarinnar á næstu dögum en enska liðið treystir meira á hann í meiðslum Sergio Aguero.

Gabriel Jesus kom til Manchester City árið 2017 og hefur þegar skorað 68 mörk fyrir félagið í öllum keppnum.

Á þessu tímabili er Gabriel Jesus kominn með 23 mörk þar af sex þeirra í sjö leikjum í Meistaradeildinni.

Margir hafa velt fyrir sér fagni Gabriel Jesus en hann fagnar hverju marki með því að þykjast vera að tala í síma. Nú hefur hann sagt frá hvað hann er að gera í þessu fagni.

Give Me Sport hefur það eftir Gabriel Jesus að brasilíski framherjinn sé þarna að senda fyrrum kærustu sinni skilaboð.

„Fagnið mitt er skilaboð til gamallar kærustu minnar sem svaraði ekki símtölunum mínum þegar ég var hjá Palmeiras en sendi mér skilaboð um leið og ég fór til City,“ sagði Gabriel Jesus.

Manchester City keypti Gabriel Jesus fyrir 27 milljónir punda í janúar 2017 en hann var þá ekki búinn að halda upp á tvítugsafmælið sitt. Hann kom til Englands með móður sinni, eldri bróður og tveimur vinum. Gamla kærastan varð aftur á móti eftir í Brasilíu.

Það er von á fleirum kærustu-fögnum á næstunni því hann hefur verið sjóðheitur í Meistaradeildinni.

Gabriel Jesus skoraði í báðum leikjunum á móti Real Madrid í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar og hefur nú skorað fimm mörk í síðustu þremur leikjum sínum í Meistaradeildinni.

Manchester City spilar við Lyon í átta liða úrslitunum og fer leikurinn fram á laugardaginn. Allir leikir Meistaradeildarinnar verða í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.