Íslenski boltinn

„Fót­boltinn er eina at­vinnu­greinin sem er al­gjör­lega lömuð eða lokuð“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Páll Kristjánsson er formaður knattspyrnudeildar KR.
Páll Kristjánsson er formaður knattspyrnudeildar KR. vísir/skjáskot

„Þetta er stutt og tiltölulega einfalt ferðalag en við þekkjum allir stærðina sem Celtic er. Þetta gæti ekki verið erfiðara fótboltalega séð en þetta er ákveðin lausn. Við vorum kvíðnir fyrir því að þurfa takast á við að halda heimaleik og það er ágætis lausn að fljúga til Skotlands,“ sagði Páll Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar KR.

KR drógst í dag gegn Celtic í forkeppni Meistaradeildarinnar en drátturinn var ánægjulegur fyrir KR-inga því ekki er hægt að leika fótbolta hér á landi, í það minnsta til 13. ágúst svo útileikur var góð lausn fyrir KR.

Páll segir hins vegar ekki skilja hvað dagsetningin 13. ágúst á að breyta í þessum efnum.

„Þetta er viðmið sem stjórnvöld hafa sett en ég og fleiri menn áttum okkur ekki á því hvað á að gerast 13. ágúst. Staðan í þessari COVID-baráttu verður ekkert betri 13. ágúst. Við vitum það öll sem höfum lágmarkskunnáttu í veiru- og kúrvufræðum. Við sjáum ekki hvað 13. ágúst á að breyta í þeim efnum.“

Formaðurinn er með skýra sýn í þessum efnum.

„Mín sýn er sú að fyrir það fyrsta að liðin sem eru í Evrópukeppni fái leiki. Besta væri að það væri alvöru keppnisleikir í Íslandsmóti og spilað fyrir luktum dyrum. Mín persónulega sýn og það þarf ekki að endurspegla mat félagsins eða annara liða er sú að ég vil gera allt sem hægt er að spila fyrir framan áhorfendur.“

„Ef það þýðir að ýta þessu inn í einhvers konar vetrarmót er ég svo sem hlynntur því. Við þurfum að tryggja að það verði leikinn fótbolti á Íslandi núna og ef að við þurfum að taka þá erfiðu ákvörðun að gera það fyrir framan enga áhorfendur, þá verðum við að gera það.“

Páll segir að það verði að spila einhverja leiki hér á landi fyrir Evrópukeppnir þeirra fjögurra liða sem hafa tryggt sér þáttökurétt svo þau standi á jafnréttisgrundvelli í leikjunum þegar þar aðkemur.

„Við verðum að tryggja það að liðin okkar; hvort sem það er KR, Breiðablik, FH eða Víkingur, fái alvöru leiki. Við erum eina landið í Evrópa sem bannar fótbolta sem stendur og fótboltinn í dag er eina atvinnugreinin sem er algjörlega lömuð eða lokuð.“

„Við þurfum að vera skynsöm og þá gildir það í báðar áttir. Að taka ekki óþarfa óhættur en heldur ekki finna upp hjólið og fylgja þeim fordæmum sem hafa verið fundinn upp í Evrópu og nágrannalöndunum,“ sagði skeleggur Páll.

Klippa: Sportpakkinn - Páll Kristjánsson

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×