Enski boltinn

Dularfull færsla Zlatan Ibrahimovic vekur von hjá stuðningsmönnum Leeds

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic vann Evrópudeildina með Manchester United en missti þó af úrslitaleiknum vegna meiðsla.
Zlatan Ibrahimovic vann Evrópudeildina með Manchester United en missti þó af úrslitaleiknum vegna meiðsla. EPA/PETER POWELL

Leeds United er að koma aftur upp í ensku úrvalsdeildina í haust og flestir stuðningsmenn vonast eftir liðstyrk áður en deildin hefst í september. Einn sá sigursælasti í sögunni er sagður mögulega á leiðinni til nýliðanna.

Zlatan Ibrahimovic hefur verið orðaður við Leeds United og virðist ýta undir slíkar sögusagnir með færslu á samfélagsmiðlum sínum. Hvort hann sé bara að stríða stuðningsmönnum Leeds á aftur á móti eftir að koma í ljós.

Zlatan Ibrahimovic birti mynd á Instagram af skútu sem er að sigla undir breskum fána og á hana skrifaði Zlatan: Næsti áfangastaður.

Zlatan Ibrahimovic er vissulega orðinn 38 ára gamall en hann var með 11 mörk og 5 stoðsendingar í 20 leikjum í öllum keppnum með AC Milan og hefur því litlu gleymt.

Ibrahimovic hefur ekki framlengt samning sinn við AC Milan og það er búist við því að hann spili ekki áfram með ítalska liðinu.

Svíinn stóð á öðrum tímamótum í janúar þar sem Zlatan Ibrahimovic var sagður hafa verið að velja á milli AC Milan og Leeds United. Þá var Leeds í ensku b-deildinni en nú er liðið komið upp í ensku úrvalsdeildina.

Andrea Radrizzani, eigandi Leeds, var eiginlega búinn að gefa upp vonina um að fá Ibrahimovic á Elland Road þegar hann var í viðtali í síðasta mánuði.

„Það verður erfitt að fá Ibrahimovic. Við reyndum að fá hann í janúar en hann ákvað að fara til AC Milan og samningurinn gufaði upp. Núna held ég að þetta sé orðið of seint. Ákefðin í enska boltanum er allt önnur,“ sagði Andrea Radrizzani.

Zlatan Ibrahimovic mun halda upp á 39 ára afmælið sitt í október. Hann lék sitt eina fulla tímabil í ensku úrvalsdeildinni með Manchester United 2016-17 og var þá með 17 mörk í 28 leikjum í ensku úrvalsdeildinni.

View this post on Instagram

I agree with Zlatan

A post shared by Zlatan Ibrahimovi (@iamzlatanibrahimovic) on




Fleiri fréttir

Sjá meira


×