Erlent

Hefja rannsókn á forseta FIFA í Sviss

Kjartan Kjartansson skrifar
Gianni Infantino, forseti FIFA. Hann að ríkissaksóknari Sviss funduðu á laun á sama tíma og embættið átti að rannsaka spillingu innan alþjóðasambandsins.
Gianni Infantino, forseti FIFA. Hann að ríkissaksóknari Sviss funduðu á laun á sama tíma og embættið átti að rannsaka spillingu innan alþjóðasambandsins. Vísir/EPA

Sérstakur saksóknari í Sviss hefur hafið rannsókn á máli Gianni Infantino, forseta Alþjóðaknattspyrnusambandsins (FIFA). Vísbendingar eru sagðar hafa fundist um glæpsamlegt athæfi í umdeildum samskiptum Infantino við ríkissaksóknara Sviss.

Svissnesk yfirvöld skipuðu sérstakan saksóknara til að rannsaka samskipti Michaels Lauber, ríkissaksóknara, og Infantino fyrr í þessum mánuði. Lauber bauðst til að segja af sér eftir að dómstóll komst að þeirri niðurstöðu að hann hefði reynt að hylma yfir fund sem hann átti með Infantino og logið að yfirboðurum sínum þegar skrifstofa hans átti að rannsaka spillingu innan FIFA.

Tilkynnt var í dag að Stefan Keller, sérstaki saksóknarinn, hefði fundið vísbendingar um möguleg lögbrot í samskiptum Infantino og Lauber. Hann hefur einnig óskað eftir því að hefja refsimeðferð á máli Lauber. Báðir menn hafa borið af sér allar sakir, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Infantino var kjörinn forseti FIFA árið 2016 eftir að forveri hans, Sepp Blatter, sagði af sér í skugga ásakana um víðtæka spillingu innan sambandsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×