Íslenski boltinn

Sjáðu þegar eyrnalokkar komu í veg fyrir víti Margrétar - Hefði skotið í rangt horn

Sindri Sverrisson skrifar
Margrét Árnadóttir varð að bíða utan vallar á meðan að vítaspyrnan var tekin.
Margrét Árnadóttir varð að bíða utan vallar á meðan að vítaspyrnan var tekin. mynd/stöð 2 sport

Margrét Árnadóttir kom inn á sem varamaður og skoraði mark fyrir Þór/KA í 2-1 sigri á KR en fékk ekki að taka víti sem hún nældi í vegna þess að hún var með eyrnalokka, sem er bannað innan vallar. Atvikið má sjá hér að neðan.

Margrét hefði verið mínútu inni á vellinum þegar hún jafnaði metin í 1-1 á 56. mínútu. Tuttugu mínútum síðar nældi hún svo í vítaspyrnu sem hún hugðist taka.

Laufey Björnsdóttir, leikmaður KR, benti hins vegar Sveini Arnarssyni dómara á það að Margrét væri með eyrnalokka, sem er bannað innan vallar. Aðstoðardómari hafði ekki tekið eftir lokkunum þegar hann hleypti Margréti inn á völlinn.

Margrét fékk gult spjald og var send að losa sig við eyrnalokkana, sem hún var fljót að gera, en dómari skipaði henni svo að bíða utan vallar á meðan að vítaspyrnan var framkvæmd.

Það kom í hlut Örnu Sifjar Ásgrímsdóttur að taka spyrnuna og hún skaut boltanum vinstra megin í markið og skoraði.

„Ég vil meina að þetta hafi verið skrifað í skýin því ég ætlaði að skjóta í hornið sem markmaðurinn fór í. Arna Sif þurfti að taka vítið fyrir mig og skaut í hitt hornið. Við getum alveg þakkað dómaranum fyrir að hafa gripið í taumana,“ sagði Margrét í viðtali við Einar Sigtryggsson á mbl.is. Hún gat hlegið að atvikinu eftir á:

„Mér er alveg sama fyrst Arna Sif skoraði. Ég hefði grenjað mig í svefn næstu þrjár nætur ef hún hefði klúðrað vítinu út af ruglinu í mér,“ sagði Margrét við Einar.

Klippa: Tók ekki vítið vegna eyrnalokkanna

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×