Enski boltinn

United og Leicester gætu mæst í hreinum úrslitaleik um Meistaradeildarsæti

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leicester City tekur á móti Manchester United í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar á sunnudaginn.
Leicester City tekur á móti Manchester United í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar á sunnudaginn. getty/Gary Prior

Sá möguleiki er fyrir hendi að Manchester United og Leicester City þurfi að mætast í hreinum úrslitaleik um sæti í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili. Þau mætast í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar á sunnudaginn og gætu þurft að mætast aftur skömmu síðar.

Þrennt þarf að gerast til að þessi úrslitaleikur verði að veruleika: United þarf að vinna West Ham, 5-3, í kvöld, Leicester að vinna United, 1-0, á sunnudaginn og Chelsea að fá a.m.k. þrjú stig úr síðustu tveimur deildarleikjum sínum.

Ef svo ólíklega vill til að allt þetta þrennt gangi eftir verða United og Leicester jöfn að stigum og með alveg jafna markatölu, 68-39. Þá þarf grípa til úrslitaleiks um fjórða og síðasta sæti Englands í Meistaradeildinni.

Leicester og United eru jöfn að stigum í 4. og 5. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Þau eru bæði með 62 stig en Chelsea er í 3. sætinu með 63 stig. Leicester hefur leikið 37 leiki en United og Chelsea 36.

United tekur á móti West Ham í kvöld og Chelsea sækir Englandsmeistara Liverpool heim. Ef Chelsea vinnur Liverpool tryggir liðið sér Meistaradeildarsæti.

Staða efstu tíu liða í ensku úrvalsdeildinni.

Leicester fær svo United í heimsókn í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar klukkan 15:00 á sunnudaginn. Chelsea mætir þá Wolves á Stamford Bridge.

Ef United vinnur West Ham í kvöld dugir liðinu jafntefli gegn Leicester í lokaumferðinni til að tryggja sér Meistaradeildarsæti.

Jafnvel þótt United takist ekki að ná 4. sæti ensku úrvalsdeildarinnar á liðið enn möguleika á að ná Meistaradeildarsæti með því að vinna Evrópudeildina. Henni lýkur í næsta mánuði. United er svo gott sem komið áfram í átta liða úrslit keppninnar eftir 0-5 sigur á LASK Linz í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitunum.

Leicester hefur aðeins einu sinni leikið í Meistaradeildinni, tímabilið 2016-17, eftir að liðið varð Englandsmeistari. Sama í hvaða sæti endar þetta tímabil í verður það næstbesti árangur liðsins frá upphafi í ensku úrvalsdeildinni.

Aldrei áður hefur það gerst að lið mætist í hreinum úrslitaleik um Meistaradeildarsæti. Það hefur þó hist þannig á að lið sem eru í baráttu um Meistaradeildarsæti mætist í lokaumferðinni. 

Það gerðist t.a.m. 2003 þegar Chelsea tryggði sér Meistaradeildarsæti með 2-1 sigri á Liverpool á Brúnni. Sumarið eftir keypti Roman Abramovich Chelsea og í kjölfarið hófst blómaskeið félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×