Enski boltinn

Neitaði að ræða De Gea og vildi ekki stað­festa að hann yrði í markinu í kvöld

Anton Ingi Leifsson skrifar
Solskjær og De Gea á góðri stundu.
Solskjær og De Gea á góðri stundu. vísir/getty

Ole Gunnar Solskjær, stjóri Manchester United, hafði lítinn áhuga á því að ræða David de Gea, markvörð liðsins, á blaðamannafundi í gær.

De Gea gerði tvö mistök í undanúrslitaleik enska bikarsins á sunnudaginn og hefur fengið ansi mikla gagnrýni eftir leikinn.

Solskjær segir að hann muni halda áfram að gera þær breytingar sem eru bestar fyrir liðið en liðið mætir West Ham síðar í dag.

„Þú verður að gera það. Allar stöður eru stórar hérna svo þú verður að gera það sem er best fyrir liðið og félagið,“ sagði Solskjær.

„Við munum gera það á miðvikudaginn [í dag], við munum gera það á sunnudaginn og þegar tímabilinu er lokið þá munum við taka fleiri ákvarðanir.“

Næst var Solskjær spurður hvort að því hvort að sá spænski myndi byrja í markinu í kvöld en hann vildi ekki staðfesta það.

„Nei, því ég vil ekki ræða þetta. Við munum standa saman og við munum sjá það á miðvikudagskvöldið. Við eigum tvo leiki eftir og við verðum að vera einbeittir.“

„David er nægilega sterkur andlega að vita að hans starf er að standa sig á æfingum næstu daga og vera klár í leikina.“

„Mitt starf er að undirbúa liðið fyrir leikinn gegn West Ham. Það er það sem við erum að gera. Bara einbeita okkur að þessum leik.“

„Ég er ekki að fara tala um einstaklinga. Allt sem við tölum um er á milli okkar. Allir leikmennirnir geta treyst mér fyrir því,“ sagði Solskjær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×