Íslenski boltinn

„Grafalvarlegt“ fyrir Ólaf Inga - „Hvað þarftu að segja til að fá rautt á þessum tímapunkti?“

Sindri Sverrisson skrifar
Ólafur Ingi Skúlason hefur komið við sögu í þremur leikjum í Pepsi Max-deildinni í sumar.
Ólafur Ingi Skúlason hefur komið við sögu í þremur leikjum í Pepsi Max-deildinni í sumar. VÍSIR/VILHELM

„Það er grafalvarlegt fyrir hann að geta ekki verið partur af liðinu,“ sagði Atli Viðar Björnsson, sérfræðingur í Pepsi Max-stúkunni, í umræðum um rautt spjald Ólafs Inga Skúlasonar.

Ólafur Ingi er spilandi aðstoðarþjálfari Fylkis en hefur átt við meiðsli að stríða og var því eingöngu í aðstoðarþjálfarahlutverkinu þegar Fylkir mætti KR á sunnudaginn. Eftir 3-0 tap Fylkis, þar sem Fylkismenn höfðu lítið mótmælt í leiknum sjálfum þrátt fyrir að tvö marka KR hefðu sennilega ekki átt að fá að standa, fékk Ólafur Ingi rautt spjald fyrir kjaftbrúk.

„Hann fékk rautt spjald þarna eftir leikinn. Ég veit ekki alveg hversu lengi Ólafur Ingi er frá (vegna meiðslanna) en hann er á leið í tveggja leikja bann því hann fékk líka rautt spjald í fyrstu umferðinni, þegar hann var nýkominn inn á sem varamaður. Hérna kemur hann ekki einu sinni inn á, jú hann labbaði inn á eftir leik, en af hverju? Ég hef margoft verið reiður eftir leik og talað við dómara, en hversu reiður getur maður orðið?“ spurði Gummi Ben, stjórnandi Pepsi Max stúkunnar.

„Það er grafalvarlegt fyrir hann að geta ekki verið partur af liðinu – geta ekki tekið þátt í undirbúningi. Þegar hann er í leikbanni sem þjálfari þá má hann ekki vera inni í klefa klukkutíma, eða einn og hálfan tíma, fyrir leik. Hann er að gera liðinu sínu mikinn óleik með því að fara í að minnsta kosti tveggja leikja bann,“ sagði Atli Viðar, og Tómas Ingi Tómasson tók undir með honum:

„Hvað þarftu að segja til að fá rautt á þessum tímapunkti? Vegna þess að það voru tvö mörk þarna sem áttu ekki að standa? Því verður pottþétt ekki breytt. Óli, með þessa reynslu, á heldur ekki að kenna svona frá sér. Alls ekki.“

Klippa: Pepsi Max stúkan - Rautt spjald Ólafs Inga

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×