Íslenski boltinn

Segja Blika ekki hafa átt að fá fleiri víti: „Einu mistök Ívars eru að gefa ekki horn“

Sindri Sverrisson skrifar
Thomas Mikkelsen lá eftir í teignum eftir baráttu við Sebastian Hedlund en ekkert var dæmt.
Thomas Mikkelsen lá eftir í teignum eftir baráttu við Sebastian Hedlund en ekkert var dæmt. MYND/STÖÐ 2 SPORT

Breiðablik skoraði eina mark sitt í 2-1 tapinu gegn Val úr vítaspyrnu en vildi fá að minnsta kosti tvær vítaspyrnur til viðbótar í leiknum. Sérfræðingar Pepsi Max-stúkunnar voru sammála mati dómara leiksins en atvikin umdeildu má sjá í greininni.

„Eftir tuttugu mínútur fannst mér aðeins eitt lið vera á vellinum og ég hlakka til að skoða mögulega tvær vítaspyrnur í fyrri hálfleik sem hann (Ívar Orri Kristjánsson, dómari leiksins) sleppti og þessa skrítnu dómgæslu,“ sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, meðal annars í viðtali á Stöð 2 Sport eftir leikinn.

Á 40. mínútu, í stöðunni 0-0, vildu Blikar fá víti tvisvar í sömu sókn, fyrst þegar þeir töldu brotið á Kwame Quee og svo þegar Thomas Mikkelsen fór niður í teignum eftir að hönd Sebastian Hedlund fór í hann.

„Við erum búnir að skoða þetta í allan dag og vorum að velta fyrir okkur hvar höndin á Hedlund myndi lenda. Svo fengum við þetta sjónarhorn og þá sést bara að hann fékk boltann í andlitið, kastaði sér niður, en höndin á Hedlund – hann vissulega bætir krafti í þetta þegar hann hoppar upp – fer í síðuna á honum. Þetta er aldrei víti og Ívar Orri gerði hárrétt þarna,“ sagði Atli Viðar Björnsson um hugsanlegt brot á Mikkelsen.

Gummi Ben viðurkenndi svo að hann hefði verið sannfærður um að Brynjólfur Andersen hefði átt að fá víti á 71. mínútu, eftir að hafa leikið listilega á Hedlund. Í ljós kom hins vegar að mistök Ívars Orra voru ekki þau að hafa sleppt því að dæma víti.

„Eftir að hafa skoðað þetta feykilega vel er niðurstaðan að Sebastian Hedlund potar boltanum aftur fyrir,“ sagði Gummi, og þeir Atli Viðar og Tómas Ingi Tómasson tóku undir. „Hann [Hedlund] á síðustu snertinguna í boltann þannig að einu mistök Ívars Orra eru að gefa ekki horn,“ sagði Atli Viðar.

Klippa: Pepsi Max stúkan - Vítaákvarðanir í leik Breiðabliks og Vals

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×