Erlent

Enn mikill á­greiningur um út­færslu björgunar­pakkans

Sylvía Hall og Gunnar Reynir Valþórsson skrifa
Emmanuel Macron vill að björgunarpakkinn verði samþykktur, en hann er sagður hafa hótað því að hætta í viðræðunum í nótt.
Emmanuel Macron vill að björgunarpakkinn verði samþykktur, en hann er sagður hafa hótað því að hætta í viðræðunum í nótt. Vísir/Getty

Leiðtogar Evrópusambandsins takast enn á um hvernig bregðast skuli við afleiðingum kórónuveirufaraldursins í álfunni og hafa viðræður þeirra nú staðið í fjóra daga án árangurs.

Leiðtogarnir hafa undanfarið fundað í Brussel og eru það fyrstu fundir þeirra frá því í febrúar. Öll tuttugu og sjö ríki ESB hafa orðið fyrir miklum búsifjum vegna faraldursins þar sem atvinnulíf hefur verið að mestu lamað undanfarna mánuði.

Breska ríkisútvarpið greinir frá því að að enn sé mikill ágreiningur uppi en stefnt er að því að komast að samkomulagi á sama tíma og samið verði um fjárlög Evrópusambandsins til næstu sjö ára. Sum ríki telja að áætlunin, sem gerir ráð fyrir björgunarpakka upp á 750 milljarða evra, sé allt of viðamikil og kostnaðarsöm, og vilja frekar að um lán verði að ræða til ríkja í stað styrkja.

Viðræður stóðu yfir í alla nótt og í morgun mun Emmanuel Macron Frakklandsforseti hafa hótað að hætta í viðræðunum, en hann vill að björgunarpakkinn verði samþykktur. Svíar og Hollendingar hafa lagst gegn pakkanum og vilja hafa hann í formi lána til ríkja sem á aðstoð þurfa að halda.

Charles Michael, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, skarst í leikinn og minnti leiðtogana á að yfir 600 þúsund manns hefðu dáið vegna veirunnar á heimsvísu. Hann vonaðist til þess að sátt næðist um aðgerðirnar og þeim myndi „takast það ómögulega“ í dag.

Viðræðum verður fram haldið síðar í dag.


Tengdar fréttir

Þolinmæði Macron og Merkel að þrjóta

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, segir mögulegt að ekki náist samkomulag um gríðarstóran björgunarpakka evrópusambandsríkjanna vegna efnahagsáfalls í kjölfar faraldurs kórónuveirunnar.

Leiðtogar ESB funda um risavaxinn björgunarpakka

Leiðtogar Evrópusambandsins komu saman í dag til að reyna að ná saman um risavaxinn björgunarpakka til aðildarríkjanna vegna afleiðinga kórónuveirufaraldurins fyrir efnahag ríkjanna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×