Íslenski boltinn

David James aðstoðaði Hermann í Vogunum

Anton Ingi Leifsson skrifar
James og Hermann á bekknum í gær.
James og Hermann á bekknum í gær. vísir/gunnar örn

Margir ráku upp stór augu þegar þeir lásu leikskýrsluna í leik Þróttar Vogum og Selfoss í 2. deild karla í gærkvöldi.

Hermann Hreiðarsson tók við liði Þróttar á dögunum og þetta var hans annar leikur en hann hafði heldur betur reynsluna með sér á bekknum.

Á bekknum var enginn annar en David James, fyrrum enskur landsliðsmarkvörður og góðvinur Hermanns, en þeir spiluðu saman hjá Portsmouth og þjálfuðu síðar meir saman hjá ÍBV og Kerala Blaster.

„James kom til landsins í vikunni og er í heimsókn en hann fer af landi brott á næstu dögum,“ sagði Marteinn Ægisson, framkvæmdastjóri Þróttar, í samtali við Vísi aðspurður út í veru James á bekknum.

„Það var algjört krydd í tilveruna að rekast á James á svæðinu en við vissum ekkert. Eina sem Hemmi bað um var auka úlpa og svo fréttum við eftir leikinn að hann væri búinn að vera hjálpa liðinu í vikunni. Þetta er bara skemmtilegt og svona viljum við hafa þetta.“

Þróttur vann leikinn 1-0 með marki Andra Jónassonar en tvö rauð spjöld fóru á loft í leiknum; eitt á hvort lið.

Vogamenn hafa klifrað upp töfluna en þeir hafa unnið síðustu þrjá leiki.

Meðfylgjandi má sjá myndir ljósmyndarans Gunnars Arnar.

James hress og kátur í gær.vísir/gunnar örn



Fleiri fréttir

Sjá meira


×