Erlent

FBI rann­sakar tölvu­á­rás á vin­sæla Twitter-reikninga

Sylvía Hall skrifar
Það eru breytingar í vændum hjá samskiptamiðlinum Twitter.
Það eru breytingar í vændum hjá samskiptamiðlinum Twitter. Vísir/Getty

Alríkislögregla Bandaríkjanna, FBI, rannsakar nú tölvuárás þar sem netþrjótar hökkuðu sig inn á aðganga frægra einstaklinga á Twitter og óskuðu eftir háum fjárhæðum í rafmynt. Meðal þeirra sem urðu fyrir barðinu á netþrjótunum voru Barack Obama, Bill Gates, Elon Musk og Kim Kardashian.

„Allir óska eftir því að ég gefi af mér, nú er tíminn kominn. Send þú mér 1.000 dali og ég sendi 2.000 til baka,“ sagði í tísti sem birtist á síðu Bill Gates stofnanda Microsoft.

Í tísti sem birt var á aðgangi Barack Obama var fullyrt að hann ætlaði að gefa til baka til samfélagsins vegna kórónufaraldursins og var farið fram á sömu upphæð í Bitcoin, eða þúsund dali, og hann myndi senda tvöfalt hærri upphæð til baka. Þá var sama færsla birt á aðgangi Joe Biden.

Alríkislögreglan segir flest allt benda til þess að þrjótarnir hafi ætlað að græða pening á árásinni og bað almenning um að vera vakandi fyrir slíkum gylliboðum.

Jack Dorsey, stofnandi Twitter, sagðist vera miður sín yfir því sem gerðist og fyrirtækið myndi gera allt sem í sínu valdi stæði til þess að skilja hvað hefði farið úrskeiðis. Unnið sé að því að bæta úr mögulegum göllum og um tíma var gripið til þeirra ráða að loka fyrir færslur frá vinsælustu aðgöngum miðilsins, ef ske kynni að óprúttinn aðili hefði komist þar inn.

„Erfiður dagur fyrir okkur hjá Twitter. Okkur líður hræðilega yfir því sem gerðist,“ skrifaði Jack á Twitter-síðu sína. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×