Erlent

Obama, Biden og Kanye West á meðal fórnarlamba internetþrjóta

Andri Eysteinsson skrifar
Twitter-síður voru vettvangur tilraunar til fjársvika.
Twitter-síður voru vettvangur tilraunar til fjársvika. Getty/SOPA

Fjöldi auðmanna varð í dag fyrir barðinu á internetskúrkum en Twitter-síður auðkýfinganna Elon Musk, Jeff Bezos og Bill Gates voru hakkaðar.

Þeir voru þó ekki þeir einu sem urðu fyrir barðinu á netþrjótunum en Barack Obama, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, forsetaframbjóðandinn Joe Biden og Kanye West rappari, voru einnig fórnarlömb hrekksins ásamt stórfyrirtækjunum Apple og Uber.

Þrjótarnir óskuðu eftir því að fylgjendur mannanna færðu sér háar fjárhæðir í rafmynt.

„Allir óska eftir því að ég gefi af mér, nú er tíminn kominn. Send þú mér 1.000 dali og ég sendi 2.000 til baka,“ sagði í tísti sem birtist á síðu Bill Gates stofnanda Microsoft.

Á síðu Musk sagði að stofnandi Tesla og SpaceX væri einstaklega gjafmildur þessa stundina og myndi tvöfalda alla Bitcoin-greiðslu sem honum bærist á næstu klukkustund.

Færslunum var þó eytt innan nokkurra mínútna en ekki er vitað hverjir standa að baki gjörningnum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×