Íslenski boltinn

Andrea Rán: Veinaði á gólfinu eftir að hún sá fréttina um að hún væri smituð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir í leik með Breiðabliksliðinu síðasta sumar.
Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir í leik með Breiðabliksliðinu síðasta sumar. Vísir/Bára

Knattspyrnukonan Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir hefur nú lýst fimmtudeginum 25. júní síðastliðnum sem var mikill örlagadagur fyrir hana og Pepsi Max deildirnar í fótbolta.

Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir greindist með COVID-19 eftir hún kom heim úr námi frá Bandaríkjunum en hún hafði þá þegar spilað tvo leiki með Breiðabliki í Pepsi Max deild kvenna og umgengst fjölda fólks í útskrifarveislum.

„Það var bara eins og heimurinn hefði stoppað. Ég náði ekki andanum og vissi um leið hvað hafði gerst. Næstu tímar fóru í að tala við smitrakningarteymið sem hringdi viðstöðulaust í mig og vann frábært starf. Ég hringdi sjálf í mína nánustu en síðan hringir kona frá smitrakningarteyminu og spyr hvort ég sé búin að láta þjálfarann minn vita. Þá vissi ég í hvað stefndi, að ég væri að fara að senda tvö lið í sóttkví og ég vissi hvaða áhrif þetta væri að fara að hafa á deildina,“ sagði Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir í viðtali við Snorra Másson hjá Morgunblaðinu.

Stjúppabbi hennar hringdi í þjálfara hennar Þorstein Halldórsson en hún sat sjálf gersamlega niðurbrotin á gólfinu í herberginu sínu.

„Þetta var versta tilfinning í lífi mínu að valda þessu. Ég sit þarna á gólfinu og reyni að eiga samskipti við mömmu í gegnum hurðina, því hún má væntanlega ekki koma nálægt mér, þannig að ég vissi ekki hvert ég átti að snúa mér eða segja eða gera,“ sagði Andrea Rán en það versta var þó ekki yfirstaðið.

„Svo gerist það mjög stuttu síðar að ég fæ skilaboð á Facebook frá mjög góðri vinkonu minni. Ég stend upp og skoða símann og les: „Heyrðu, ert þú með COVID?“ Meðfylgjandi var skjáskot af frétt með mynd af mér og nafninu mínu: Íslandsmótið í uppnámi? Leikmaður Breiðabliks greind með COVID-19,“ sagði Andrea Rán og hélt áfram.

„Ég hélt að ég hefði brotnað niður fyrst en þessu get ég ekki einu sinni lýst. Þetta var ólýsanleg tilfinning, sem ég myndi aldrei vilja að neinn gengi í gegnum, ekki einu sinni minn versti óvinur. Ég þurfti ekki einu sinni að kalla á mömmu, ég bara veinaði,“ sagði Andrea í viðtalinu við Morgunblaðið.  Flest­ir liðsfé­lag­ar henn­ar fréttu þannig af veik­ind­um henn­ar í gegn­um fjöl­miðla.

Þrjú kvennalið, Breiðablik, KR og Fylkir sem og karlalið Stjörnunnar þurftu að fara í sóttkví og því varð veruleg röskun á leikjadagskrá þessara liða.

Andrea Rán smitaði samt aðeins þrjá ein­stak­linga. Tvo í einni og sömu út­skrift­ar­veislu í Kópa­vogi á laug­ar­deg­in­um og síðan frænku sína, sem vinn­ur í at­vinnu­vegaráðuneyt­inu. Þrátt fyr­ir það er Andrea samt Íslands­meist­ari í sótt­kví­ar­ráðstöf­un­um því rakn­ing­ar­t­eymið sendi 3-400 manns í sótt­kví vegna smits­ins eins og fram kom í viðtalinu í Morgunblaðinu sem má sjá allt með því að smella hér.

Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir spilaði sinn fyrsta leik eftir COVID-19 smitið á þriðjudaginn þegar hún spilaði fimm síðustu mínúturnar í 4-0 sigri Breiðabliks á ÍBV.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×