Enski boltinn

Solskjær segir að Chelsea fái ósanngjarnt forskot fyrir bikarleikinn við Man. United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bruno Fernandes og félagar í liði Manchester United fá ekki mikla hvíld fyrir leikinn á móti Chelsea í undanúrslitum enska bikarsins á sunnudaginn.
Bruno Fernandes og félagar í liði Manchester United fá ekki mikla hvíld fyrir leikinn á móti Chelsea í undanúrslitum enska bikarsins á sunnudaginn. EPA-EFE/FACUNDO ARRIZABALAGA

Ole Gunnar Solskjær segir að leikmenn sínir hjá Manchester United séu í betra formi en þeir hafa verið í mörg ár og þeir þurfa að sína það nú þegar liðið spilar fjóra mikilvæga leiki á næstu ellefu dögum.

Ole Gunnar Solskjær ræddi formið á liði sínu á blaðamannafundi fyrir leik Manchester United á móti Crystal Palace sem fer fram í kvöld.

Solskjær segir að liðið sé að uppskera núna vegna æfingaferðarinnar til Perth sumarið 2019. „Við erum í formi, mjög góðu formi,“ sagði Ole Gunnar Solskjær.

„Formið var stórmál undir lok síðasta tímabils því þá fannst okkur liðið ekki vera í nægilega góðu líkamlegu ásigkomulagi og því fylgdu meiðsli. Við höfum ekki verið í slíkum vandræðum á þessu tímabili og okkar strákar hafa ekki verið í svona góðu formi áður,“ sagði Solskjær.

Manchester United spilar fjóra leiki á næstu ellefu dögum, þrjá í deildinni og svo undanúrslitaleik enska bikarsins um næstu helgi.

Manchester United mætir Chelsea í undaúrslitaleiknum á sunnudaginn og Ole Gunnar Solskjær er ekki ánægður með hvernig leikjadagskráin hjálpar Chelsea fyrir þann leik.

Chelsea spilaði sinn leik í umferðinni á þriðjudaginn en leikur Manchester United fer ekki fram fyrr en í kvöld. Chelsea fær því fimm daga til að undirbúa sig fyrir bikarleikinn en United aðeins þrjá.

„48 klukkutímar skipta miklu máli á þessum tíma á leiktíðinni og við höfum ekki fjóra ása upp í erminni næstu tvær vikur. Við verðum bara að setja upp pókerandlitið og halda vel á spöðunum,“ sagði Solskjær.

Manchester United er í harðri baráttu um sæti í Meistaradeildinni og Solskjær getur því ekkert hvílt menn í kvöld. United verður helst að vinna til að fylgja Chelsea og Leicester City eftir í baráttunni um tvö síðustu sætin inn í Meistaradeildina á næstu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×