Enski boltinn

Solskjær segir að Chelsea fái ósanngjarnt forskot fyrir bikarleikinn við Man. United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bruno Fernandes og félagar í liði Manchester United fá ekki mikla hvíld fyrir leikinn á móti Chelsea í undanúrslitum enska bikarsins á sunnudaginn.
Bruno Fernandes og félagar í liði Manchester United fá ekki mikla hvíld fyrir leikinn á móti Chelsea í undanúrslitum enska bikarsins á sunnudaginn. EPA-EFE/FACUNDO ARRIZABALAGA

Ole Gunnar Solskjær segir að leikmenn sínir hjá Manchester United séu í betra formi en þeir hafa verið í mörg ár og þeir þurfa að sína það nú þegar liðið spilar fjóra mikilvæga leiki á næstu ellefu dögum.

Ole Gunnar Solskjær ræddi formið á liði sínu á blaðamannafundi fyrir leik Manchester United á móti Crystal Palace sem fer fram í kvöld.

Solskjær segir að liðið sé að uppskera núna vegna æfingaferðarinnar til Perth sumarið 2019. „Við erum í formi, mjög góðu formi,“ sagði Ole Gunnar Solskjær.

„Formið var stórmál undir lok síðasta tímabils því þá fannst okkur liðið ekki vera í nægilega góðu líkamlegu ásigkomulagi og því fylgdu meiðsli. Við höfum ekki verið í slíkum vandræðum á þessu tímabili og okkar strákar hafa ekki verið í svona góðu formi áður,“ sagði Solskjær.

Manchester United spilar fjóra leiki á næstu ellefu dögum, þrjá í deildinni og svo undanúrslitaleik enska bikarsins um næstu helgi.

Manchester United mætir Chelsea í undaúrslitaleiknum á sunnudaginn og Ole Gunnar Solskjær er ekki ánægður með hvernig leikjadagskráin hjálpar Chelsea fyrir þann leik.

Chelsea spilaði sinn leik í umferðinni á þriðjudaginn en leikur Manchester United fer ekki fram fyrr en í kvöld. Chelsea fær því fimm daga til að undirbúa sig fyrir bikarleikinn en United aðeins þrjá.

„48 klukkutímar skipta miklu máli á þessum tíma á leiktíðinni og við höfum ekki fjóra ása upp í erminni næstu tvær vikur. Við verðum bara að setja upp pókerandlitið og halda vel á spöðunum,“ sagði Solskjær.

Manchester United er í harðri baráttu um sæti í Meistaradeildinni og Solskjær getur því ekkert hvílt menn í kvöld. United verður helst að vinna til að fylgja Chelsea og Leicester City eftir í baráttunni um tvö síðustu sætin inn í Meistaradeildina á næstu leiktíð.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.