Erlent

Hæstiréttur úrskurðaði gegn forsetanum

Andri Eysteinsson skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AP/Alex Brandon

Hæstiréttur Bandaríkjanna kvað upp þann dóm í dag að saksóknarar í New York geti krafist þess að fá aðgang að skattgögnum Donald Trump Bandaríkjaforseta til rannsóknar. Málið tengist sakamálarannsókn sem meðal annars lýtur að þöggunargreiðslum til kvenna sem segjast hafa haldið við Trump. AP greinir frá.

Einungis tveir af níu dómurum réttarins studdu málstað forsetans sem barist hefur gegn því að skattskýrslur hans verði opinberaðar. Athygli vekur að báðir hæstaréttardómararnir sem Trump hefur skipað í embætti greiddu atkvæði gegn forsetanum en Trump skipaði Neil Gorsuch árið 2017 og Brett Kavanaugh ári síðar.

Málflutningur fór fram símleiðis í maí síðast liðnum vegna faraldurs kórónuveirunnar. Þar héldu lögmenn Trump því fram að forsetinn væri friðhelgur fyrir rannsókn á meðan að hann situr í embætti. Dómurinn hafnaði þeim málflutningi lögfræðiteymis forsetans.

Dómurinn kvað einnig upp dóm í sambærilegu máli þar sem að fulltrúadeild Bandaríkjaþings krefst þess að fá skattgögnin afhent. Dómurinn hafnaði þeirri kröfu og sendi aftur til neðra dómstigs. Ekki er ljóst hvenær málið verður tekið fyrir að nýju. Sú ákvörðun Hæstaréttar er í bandarískum miðlum sögð vera tímabundinn sigur forsetans.

Gögn forsetans eru í vörslu enduskoðunarfyrirtækisins Mazars USA sem hafa staðfest að fyrirtækið muni fara eftir dómi réttarins.

Þrátt fyrir niðurstöðuna í dag er ekki ljóst hvenær Trump þarf að láta gögnin af hendi.

Fréttin hefur verið uppfærð.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.