Íslenski boltinn

Arnar: Hver sem er getur séð að þetta voru ekki rauð spjöld

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arnar Gunnlaugsson var ekki sáttur með dómgæsluna í leik KR og Víkings.
Arnar Gunnlaugsson var ekki sáttur með dómgæsluna í leik KR og Víkings. vísir/daníel

„Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að segja. Maður hefur verið svo lengi í þessu og ég hélt ég væri búinn að sjá allt en greinilega ekki. Þetta var mjög eftirminnilegur leikur á margan hátt,“ sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, eftir tapið fyrir KR, 2-0, í kvöld.

Allir miðverðir Víkings sem byrjuðu leikinn, Kári Árnason, Sölvi Geir Ottesen og Halldór Smári Sigurðsson, fengu rauða spjaldið og Víkingar voru því átta inni á vellinum undir lokin. Arnar var ekki sáttur með rauðu spjöldin.

„Hvað á ég að segja? Hver sem er getur séð að þetta voru ekki rauð spjöld,“ sagði Arnar en rauðu spjöldin má sjá hér fyrir neðan.

„Fyrsta rauða spjaldið var ódýrt. Kristján Flóki [Finnbogason] tosaði í Kára. Spjaldið á Sölva var djók. Honum var greinilega hrint. Halli fór í 50-50 tæklingu. Hann var á mikilli ferð en þetta er ljúfasti maður í heimi og fór ekki í tæklinguna til að meiða hann. Þetta eru atvik sem þarf að vega og meta hverju sinni.“

Arnar var ekki sáttur með frammistöðu Helga Mikaels Jónassonar, dómara leiksins, og það einskorðaðist ekki bara við rauðu spjöldin.

„Það voru fullt af öðrum vafaatriðum, eins og vítið sem við áttum að fá í fyrri hálfleik. Þetta var eins augljóst víti og þau geta verið,“ sagði Arnar.

„Ellefu á móti ellefu var þetta flottur leikur hjá okkur og við áttum að vera búnir að skora 2-3 mörk áður en rauðu spjöldin fóru á loft.“

Arnar kvaðst ekki vera fúll út í þremenningana sem fengu rauðu spjöldin en þeir eru jafnframt reyndustu leikmenn Víkings.

„Ég er alls ekki svekktur út í þá. Þetta eru svo miklir meistarar sem hafa gefið okkur svo mikið,“ sagði Arnar sem verður án þeirra Kára, Sölva og Halldórs Smára í leiknum gegn Val á miðvikudaginn.

„Ég held ég sé enn skráður í Fram þannig ég get því miður ekki spilað,“ sagði Arnar léttur. „En við finnum einhverja. Við erum með unga og ferska stráka og það verður ekkert vandamál.“


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.