Erlent

Smit á uppleið í 37 ríkjum Bandaríkjanna

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Bandaríkin standa nú frammi fyrir annarri bylgju af kórónavírussmitum.
Bandaríkin standa nú frammi fyrir annarri bylgju af kórónavírussmitum. AP/Christopher Dolan.

Nýjum kórónuveirusmitum fer fjölgandi í 37 af 50 ríkjum Bandaríkjanna síðustu tvær vikurnar, miðað við fjórtán daga tímabil snemma í júní, að því er greining Reuters leiðir í ljós.

Í frétt Reuters um málið segir að því sé ljóst að faraldurinn sé á fleygiferð í Bandaríkjunum. Er Flórída tekið sem dæmi þar sem tíu þúsund smit greindust í dag. Þá hefur smitum fjölgað um 37 prósent í Kaliforníu undanfarna fjórtán daga. Alls hafa 128 þúsund látist af völdum Covid-19 í Bandaríkjunum. Það er um fjórðungur allra þeirra sem staðfest hefur verið að hafi látist í tengslum við vírusinn.

Alls greindust 53 þúsund með smit í Bandaríkjunum í dag, fleiri en nokkru sinni fyrr á einum degi. Fyrra met, rétt tæplega 52 þúsund smit, var sett í gær.

Ríkisstjórar víða íhuga nú eða hafa tilkynnt um að aftur verði hert á samkomubanni, fjöldatakmörkunum eða öðrum aðgerðum sem slakað var á fyrir skömmu vegna alvarlega efnahagslegra áhrifa sem lokanirnar höfðu.

Þannig hefur Greg Abbott, ríkisstjóri Texas, tilkynnt að nú séu allir þeir sem staddir séu í sýslu þar sem tuttugu eða fleiri smit eru staðfest að ganga með grímu á almannafæri. Er þar um viðsnúning að ræða hjá Abbott en stutt er síðan hann bannaði embættismönnum að refsa þeim sem ekki ganga um með grímur á almannafæri.

Anthony Fauci, einn helsti smitsjúkdómasérfræðingur Bandaríkjanna, telur að í það minnsta megi skýra hluta hinnar nýju bylgju með því að yfirvöld víða um Bandaríkin gripu ekki til jafn harðra aðgerða og sum lönd í Evrópu gerðu til þess að stemma í stigu við faraldurinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×