Íslenski boltinn

Er Selfoss búið að snúa við blaðinu?

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Selfoss stefnir á að gera Val erfitt fyrir í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn.
Selfoss stefnir á að gera Val erfitt fyrir í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn. Vísir/HAG

Selfoss vann í gærkvöld annan leikinn í röð í Pepsi Max deild kvenna. Svo virðist sem liðið sé komið á beinu brautina eftir erfiða byrjun á mótinu.

Síðasta sumar vann Selfoss sinn fyrsta bikarmeistaratitil frá upphafi. Var liðið styrkt til muna í vetur og yfirlýst markmið fyrir sumarið var að vera í toppbaráttu deildarinnar.

Þær hófu svo sumarið af krafti með 2-1 sigri á Íslandsmeisturum Vals í Meistarakeppni KSÍ. 

Anna María Friðgeirsdóttir, fyrirliði, skoraði sigurmark Selfoss gegn Val í Meistarakeppni KSÍ.Vísir/HAG

Í kjölfarið fylgdu tveir tapleikir gegn Fylki og Breiðabliki. Það verður seint talinn heimsendir að tapa þeim leikjum en Fylkir hafði fram að þeim tímapunkti unnið alla leiki sína á árinu. Þá er Breiðablik ógnarsterkt.

Þó svo að Selfoss hafi tapað leikjunum með markatölunni 3-0 þá fékk liðið vítaspyrnu undir lok leiks gegn Fylki sem hefði tryggt þeim stig á erfiðum útivelli í Árbænum. Þá skoruðu Blikar tvívegis eftir löng innköst – í upphafi og undir lok leiks – en það er eitthvað sem ætti að vera hægt að koma í veg fyrir.

Eftir töpin tvö var hins vegar alveg ljóst að Selfoss mátti ekki við öðru tapi enda ekkert lið orðið Íslandsmeistari á þessari öld með fleiri en tvö töp.

Sjá einnig: Eitt tap í viðbót og draumar um Íslandsmeistaratitil eru úr sögunni

Liðið svaraði með nokkuð þægilegum 2-0 sigri á FH í 3. umferð. Í gær var Stjarnan svo lögð af velli í Garðabænum, lokatölur 4-1 Selfyssingum í vil. Þarna er um að ræða tvo útileiki sem gætu reynst toppliðum deildarinnar erfiðir í sumar.

Tveir sigrar í röð og Selfoss er komið í 4. sæti deildarinnar. Í stað þess að mæta KR eftir fjóra daga þá fær liðið níu daga frí þangað til það mætir Stjörnunni aftur í bikarnum.

Úr leik Fylkis og Selfoss.Vísir/Daniel

Eins og alþjóð veit kom upp kórónusmit í Pepsi Max deild kvenna nýverið og því hefur þurft að fresta leikjum Fylkis, Breiðabliks og KR um rúmlega tvær vikur. Hvaða áhrif það mun hafa á eftir að koma í ljós en þegar öllu er á botninn hvolft gæti það hjálpað Selfyssingum að blanda sér í toppbaráttu deildarinnar.

Liðið heimsækir nýliða Þróttar í því sem er næsta heila umferð deildarinnar 14. og 15. júlí. Á sama tíma mætast Valur og Fylkir, tvö af þeim liðum sem eru fyrir ofan Selfoss í töflunni. Svo í umferðinni eftir það mætir Þór/KA á Selfoss en á sama tíma mætast Valur og Breiðablik – sem eru bæði með fullt hús stiga- á Kópavogsvelli.

Falli úrslitin Selfyssingum í hag er aldrei að vita en liðið verði komið í toppbaráttuna innan tíðar.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.