Íslenski boltinn

Fyrrum leikmaður New­cast­le til Grinda­víkur

Anton Ingi Leifsson skrifar
Mackenzie Heaney hefur samið við Grindavík.
Mackenzie Heaney hefur samið við Grindavík. mynd/grindavík

Grindavík hefur samið við Englendinginn Mackenzie Heaney en hann kemur á láni frá enska liðinu Whitby Town.

Mackenzie Heaney er 21 árs sóknarþenkjandi miðjumaður sem getur einnig leikið á kantinum. Hann kom til reynslu til Grindavíkur í síðustu viku og hreif þjálfara liðins og forráðamenn með færni sinni.

Hann er með öflugan vinstri fót og er góður skotmaður en Heaney kemur úr unglingaakademíu Newcastle United og lék yngri liðum Newcastle við góðan orðstír. Hann ólst upp með Longstaff bræðrum sem í dag leika báðir með aðalliði Newcastle.

Heaney á að baki leiki með U17 ára landsliði Englands en hefur einnig verið valinn í yngri landslið Skotlands. Heaney þótti gríðarlega efnilegur hjá Newcastle en lenti í mjög erfiðum meiðslum á öxl.

Hann fékk ekki áframhaldandi samning hjá Newcastle og gerði því nýverið samning við enska liðið Whitby Town sem hefur nú lánað leikmanninn til Grindavíkur í sumar.

Í liði Grindavíkur er Hilmrar McShane en Heaney og McShane léku saman í yngri landsliðum Skotlands.

Grindavík er með þrjú stig eftir fyrstu tvo leikina í Lengjudeildinni en er úr leik í Mjólkurbikarnum. Sigurbjörn Hreiðarsson er þjálfari liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×