Erlent

Frestar eigin brúð­kaupi enn á ný

Atli Ísleifsson skrifar
Frederiksen og Tengberg hafa verið saman frá árinu 2014.
Frederiksen og Tengberg hafa verið saman frá árinu 2014. Mette Frederiksen

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, segir að hún hafi aftur þurft að fresta fyrirhuguðu brúðkaupi sínu og unnustans Bo Tengberg.

Til stóð að parið gengi í það heilaga þann 15. júlí en eftir að boðað var til leiðtogafundar hjá Evrópusambandinu varð ljóst að fresta þarf brúðkaupinu.

Frederiksen greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni. „Ég hlakka svo til að giftast þessum stórkostlega manni. En það verður greinilega ekki auðvelt þar sem nú er búið að boða til leiðtogaráðsfundar í Brussel akkúrat á þeim laugardegi í júlí þar sem við höfðum fyrirhugað brúðkaup. Úff,“ skrifar Frederiksen, og bætir við að hún vilji vinna vinnuna sína og passa upp á hagsmuni Danmerkur.

„Svo við verðum enn á ný að breyta áætlunum okkar. Ástin er ofar öllu. Og okkur tekst svo vonandi að ganga í hjónaband. Ég hlakka til að segja já við Bo ( sem er sem betur fer mjög þolinmóður).“

Frederiksen og Tengberg hafa verið saman frá árinu 2014. Frederiksen á tvö börn úr fyrra hjónabandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×