Erlent

Fólk frá á­kveðnum ríkjum Banda­ríkjanna sæti tveggja vikna sótt­kví

Atli Ísleifsson skrifar
New York hefur farið illa út úr faraldri kórónuveirunnar.
New York hefur farið illa út úr faraldri kórónuveirunnar. Getty

Yfirvöld í New York, New Jersey og Connecticut hafa ákveðið að fólk sem kemur frá ríkjum þar sem kórónuveiran er enn í miklum vexti skuli sæta tveggja vikna sóttkví við komuna til ríkjanna.

Phil Murphy, ríkisstjóri New Jersey, sagði íbúa ríkjanna þriggja hafa „farið til heljar og til baka“ vegna kórónuveirunnar. Þeir vildu eftir fremsta megni forðast aðra bylgju faraldurs í ríkjunum.

Nokkur ríki sunnan og vestan til í Bandaríkjunum hafa undanfarið greint frá miklum vexti kórónuveirunnar og talað um metfjölda smita í því samhengi. Minnst 2,3 milljónir Bandaríkjamanna hafa greinst með veiruna samkvæmt opinberum tölum og þá hefur veiran dregið fleiri en 121 þúsund manns til dauða þar vestra.

Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York, sagði á blaðamannafundi að umrædd ríki væru Alabama, Arkansas, Arizona, Flórída, Norður-Karólína, Suður-Karólína, Texas og Utah. Fólk sem er að koma frá þessum ríkjum þurfi að sæta sóttkví við komuna til New York.

Virði fólk ekki skyldur um sóttkví verði það sektað. Sektin hljóðar upp á þúsund dali en allt að fimm þúsund dali fyrir ítrekuð brot.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×