Erlent

Fyrsti fjölda­fundur Trump haldinn á morgun þrátt fyrir á­hyggjur vegna kórónu­veirunnar

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti á fjöldafundi í mars síðastliðnum.
Donald Trump Bandaríkjaforseti á fjöldafundi í mars síðastliðnum. Getty/Brian Blanco

Hæstiréttur Oklahoma dæmdi í dag að fjöldafundur Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, sem halda á í Tulsa á laugardag, megi fara fram. Þetta er fyrsti fjöldafundur forsetans frá því í mars. Kæra var lögð fram í vikunni í von um að stöðva fundinn vegna áhyggna um að fundurinn myndi auka líkur á frekari útbreiðslu kórónuveirunnar.

Tilfellum kórónuveirunnar hefur fjölgað í Oklahoma síðustu vikur og hafa heilbrigðisyfirvöld í ríkinu lýst yfir áhyggjum vegna fundarins. Talsmenn kosningabaráttu Trumps lýstu því yfir að meira en milljón hafi óskað eftir miðum á fundinn um helgina.

Röð byrjaði að myndast fyrir utan Bank of Oklahoma Center, staðinn þar sem fundurinn verður haldinn, fyrr í þessari viku. Um nítján þúsund manns komast inn í salinn sem fundurinn mun fara fram í.

Stuðningsmenn Trump byrjuðu að tjalda fyrir utan fundarstaðinn fyrr í þessari viku til að tryggja sér sæti á fundinum.Getty/Win McNamee

Ákæran var lögð fram í nafni íbúa og fyrirtækja á svæðinu sem vildu tryggja að fjarlægðarmörk samkvæmt fyrirmælum sóttvarnaryfirvalda Bandaríkjanna yrðu tryggð á viðburðinum eða að honum yrði aflýst. Hæstiréttur ríkisins sagði þó að tilslakanir væru farnar af stað í ríkinu og að fjarlægðartakmörk væru í höndum einstaka fyrirtækjaeigenda og einstaklinga.

Þá hefur kosningastjórn Trump greint frá því að hiti viðstaddra verði mældur við innganginn og að boðið verði upp á handspritt og grímur á staðnum. Þá þurfa allir sem kaupa miða á netinu fyrir fundinn að haka við það að þeir taki alla ábyrgð smitist þeir af kórónuveirunni á viðburðinum og muni ekki kenna kosningabaráttu forsetans um „veikindi eða slys.“

Forsetinn sjálfur hefur mótmælt kröfunni um að fólk þurfi að bera grímur og sagt það vera á ábyrgð hvers og eins. Þá sagði Kayleigh McEnany, upplýsingafulltrúi Hvíta hússins, að þó að gestum væri boðið upp á grímur væri þeim ekki skylt að bera þær fyrir vitum. Hún sjálf muni ekki vera með grímu á viðburðinum.


Tengdar fréttir

Segir að allt sem Trump geri snúist um endurkjör

John Bolton, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Donald Trump Bandaríkjaforseta segir að fyrrverandi yfirmaður sinn sé „ótrúlega fáfróður“ og hafi hvorki getu né færni til þess að sinna starfi forsetans. Bolton segir að eina leiðarljós Trump í ákvörðunum sé möguleikinn á endurkjöri.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×