Erlent

Segir Trump hafa biðlað til Xi um að­stoð til að tryggja vin­sældir á kosninga­ári

Atli Ísleifsson skrifar
John Bolton gegndi stöðu þjóðaröryggisráðgjafa Bandaríkjaforseta frá apríl 2018 til september 2019.
John Bolton gegndi stöðu þjóðaröryggisráðgjafa Bandaríkjaforseta frá apríl 2018 til september 2019. Getty

John Bolton, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Donalds Trump Bandaríkjaforseta, fullyrðir í nýrri bók sem enn er ekki komin út, að Trump hafi beðið Xi Jinping Kínaforseta um aðstoð við að ná endurkjöri í komandi forsetakosningum í Bandaríkjunum sem fram fara í nóvember.

Bolton segir að Trump hafi farið fram á það við Xi að Kínverjar myndu kaupa mikið magn landbúnaðarvara frá Bandaríkjunum til að tryggja vinsældir forsetans í landbúnaðarhéruðum Bandaríkjanna.

Xi Jinping mun hafa tekið heldur dræmt í hugmyndina, en þó lofað að setja landbúnaðarmál í forgrunn í viðræðum ríkjanna um viðskiptasamninga.

Stjórn Trump reynir nú hvað hún getur til að koma í veg fyrir útgáfu bókarinnar en forsetinn fær vægast sagt lélega einkunn hjá Bolton. Auk þess að betla aðstoð af Xi Jinping á Trump einnig að hafa hvatt hann til að byggja fleiri fangabúðir fyrir Úígúra, minnihlutahóp múslima í Kína.

Þessi ummæli skjóta skökku við ekki síst í ljósi þess að opinberlega hefur Trump og stjórn hans gagnrýnt Kínverja harðlega fyrir framkomu þeirra í garð Úígúra og nú síðast hótað viðskiptaþvingunum.

Bolton gegndi stöðu þjóðaröryggisráðgjafa Bandaríkjaforseta frá apríl 2018 til september 2019.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×