Erlent

Á­standið í Peking vegna kórónu­veirunnar graf­alvar­legt

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Íbúar hverfis í Peking bíða þess að komast í sýnatöku.
Íbúar hverfis í Peking bíða þess að komast í sýnatöku. Getty/Lintao Zhang

Yfirvöld í Peking segja nýjustu útbreiðslu kórónuveirufaraldursins mjög alvarlega. Tugir nýrra tilfella hafa komið upp á síðustu dögum og í kjölfarið hefur íþrótta- og viðburðastöðum verið lokað og ferðabann verið sett í gildi.

Í hluta kínversku höfuðborgarinnar var útgöngubann sett í gildi í gærkvöldi og hafa öryggishlið verið sett upp milli hverfa til að koma í veg fyrir óþarfa ferðalög milli þeirra. Þá hefur fólki sem talið er líklegt að sé smitað verið bannað að yfirgefa borgina.

Yang Zhanqiu, forseti smitsjúkdómadeildar háskólans í Wuhan, sagði í samtali við innlenda fréttamiðla að hann teldi að það afbrigði veirunnar sem nú herjar á Peking borg sé skæðara en það sem reið yfir Wuhanborg í upphafi faraldursins.

Meira en 20 hverfi í Peking hafa verið skilgreind sem miðlungs-áhættusvæði og heilbrigðisyfirvöld sögðu á þriðjudag að fólk sem ekki má yfirgefa heimili sín og þeir sem eru í einangrun muni fá mat og lyf send heim.

Allar íþróttamiðstöðvar og -mannvirki voru lokaðar í gær og einhver íþróttalið sem hittust í gær hafa verið send í sýnatöku. Þá hafa 106 ný tilfelli verið staðfest á síðustu dögum, þar á meðal greindust 27 ný tilfelli í dag, þriðjudag. Upptök veirunnar hafa verið rakin til markaðar í suð-vesturhluta Peking sem er sá stærsti sinnar gerðar í Asíu. Meira en 200 þúsund manns hafa farið á markaðinn frá 30. maí.

Fleiri héruð hafa hert reglur og er öllum þeim sem ferðast hafa til Peking skylt að fara í sóttkví. Yfirvöld í Sjanghæ hafa gefið út að allir sem ferðist þangað frá svæðum sem talin eru áhættusvæði af miðlungs eða alvarlegu stigi þurfi að fara í tveggja vikna sóttkví.

Þá hafa meira en átta þúsund starfsmenn markaðarins verið sendir í sýnatöku og halda nú til í farsóttahúsum. Aðrir markaðir í Peking og meira en þrjátíu þúsund veitingastaðir hafa verið hreinsaðir hátt og lágt.


Tengdar fréttir

Til­fellum kórónu­veiru fjölgar í Peking

Metfjöldi kórónuveirutilfella greindist í Peking á mánudag, annan daginn í röð og hefur verið kallað eftir því að takmarkanir verði settar aftur í gildi.

Loka hluta Peking vegna nýrra smita

Kínversk yfirvöld hafa lokað ellefu íbúahverfum í höfuðborginni Peking vegna nýrrar smitbylgju í borginni sem rakin er til matarmarkaðar í nágrenninu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×