Íslenski boltinn

Tár á hvarmi eftir mark Kristins - Enginn hringdi eftir síðasta tímabil

Sindri Sverrisson skrifar
Kristinn Steindórsson skorar hér langþráð mark sitt gegn Gróttu.
Kristinn Steindórsson skorar hér langþráð mark sitt gegn Gróttu. VÍSIR/HAG

„Það mátti sjá tár á hvarmi. Það voru allir ofboðslega ánægðir fyrir hönd Kidda,“ sagði Gummi Ben í Pepsi Max stúkunni þegar rætt var um Kristin Steindórsson og langþráð mark hans gegn Gróttu á sunnudag.

Kristinn skoraði lokamarkið í 3-0 sigri Breiðabliks, í sínum fyrsta leik Blika eftir níu ár í atvinnumennsku og hjá FH. Markið laglega er það fyrsta sem Kristinn skorar í deildarleik síðan árið 2014.

„Gaurinn hérna við hliðina á mér hlýtur að vera brjálaður að sjá þetta. Hvar var þetta í Hafnarfirðinum? „I want my money back“,“ sagði Hjörvar Hafliðason léttur í bragði og horfði til sessunautar síns, Davíðs Þórs Viðarssonar, sem lék með Kristni hjá FH síðustu tvö ár. Innslagið má sjá neðst í greininni og mark Kristins má sjá hér að neðan.

Klippa: Magnað mark og viðtal við Kristin Steindórsson

„Það vita það allir að hann er frábær leikmaður,“ sagði Davíð. „Maður sá þetta alveg þegar hann var í FH, það var ekki málið, á æfingum og slíkt. En hann náði sér ekki á strik, það er engum blöðum um það að fletta, en hann fékk líka kannski ekki að spila sig inn í eina, ákveðna stöðu. Hann byrjaði úti á væng, svo kom hann inn á miðja miðjuna, svo var hann fremstur á miðjunni, svo aftastur. Það var kannski dálítið erfitt fyrir hann. En það er frábært að hann hafi náð að skora þetta mark því ég held að það gefi honum virkilega mikið. Ég vona innilega að hann nái sér á strik með Blikunum; frábær leikmaður og frábær náungi,“ sagði Davíð.

Hefði getað endað í 2. deild

Hjörvar benti á að Kristinn hefði í raun verið í talsverðri óvissu eftir að samningur hans við FH rann út síðasta haust. Hann skrifaði undir samning við Breiðablik í febrúar.

„Það er líka svo magnað að eftir að FH-tímabilinu lauk í fyrra þá voru liðin ekkert að hringja í hann. Hann var kannski bara, með fullri virðingu fyrir því metnaðarfulla verkefni, á leiðinni í Kórdrengi [sem leika í 2. deild]. Hann var bara úti með símann að sjá hvort það ætlaði ekki einhver að hringja í sig. Hvort það væri ekki samband. „Er enginn að fara að hringja?“ En Blikarnir taka hann inn á æfingar, sjá hvernig standi hann er í, og að sjálfsögðu tóku þeir hann. Ég held að það séu allir að vonast til að þetta gangi upp,“ sagði Hjörvar.

Klippa: Pepsi Max stúkan - Umræða um Kristin Steindórsson

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×