Enski boltinn

Segir að Henderson verði aðalmarkvörður Man Utd og enska landsliðsins þegar fram líða stundir

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Dean Henderson hefur verið frábær í marki Sheffield United.
Dean Henderson hefur verið frábær í marki Sheffield United. EPA-EFE/LYNNE CAMERON

Ole Gunnar Solskjær, þjálfari enska úrvalsdeildarliðsins Manchester United, segir að enski markvörðurinn Dean Henderson sé búinn að sýna það og sanna að hann verði aðalmarkvörður Manchester United sem og enska landsliðsins á komandi árum.

Henderson er fæddur árið 1997 og hefur undanfarin tvö ár verið á láni hjá Sheffield United. Liðið komst nokkuð óvænt upp úr ensku B-deildinni á síðustu leiktíð og hefur verið spútniklið ensku úrvalsdeildarinnar það sem af er þessu tímabili.

Talið er nokkuð öruggt að Henderson verði lánaður til Sheffield út þetta tímabil en samningur hans ætti að vera runninn út þar sem tímabilinu ætti að sjálfsögðu að vera lokið. Sökum kórónufaraldursins þá frestaðist tímabilið og því þarf að framlengja lánsamning leikmannsins.

„Dean hefur tekið mjög góðar ákvarðanir undanfarin ár og hefur þróast í frábæran markvörð. Við erum að skoða hvað hann verður á næstu leiktíð en það er enn óljóst,“ sagði Ole Gunnar við Sky Sports.

David De Gea, aðalmarkvörður Manchester United, verður þrítugur á þessu ári og ætti því að eiga nóg eftir á tanknum. Spænski markvörðurinn skrifaði undir fjögurra ára samning við enska félagið á síðasta ári og því ólíklegt að hann sé á förum á næstunni.

„Það er ekki á mína ábyrgð að leikmenn séu ánægður eða í liðinu. Það er á þeirra ábyrgð að standa sig vel,“ sagði Ole einnig.

Manchester United er sem stendur tveimur stigum fyrir ofan Sheffield United í töflunni en síðarnefnda liðið á leik til góða. Enska úrvalsdeildin fer aftur af stað þann 17. júní en fyrsti leikurinn eftir hlé er leikur Aston Villa og Sheffield.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×