Íslenski boltinn

„Höfum nú ekkert gleymt öllu“

Sindri Sverrisson skrifar
KR-ingar fagna eftir sigurinn góða á Val í kvöld.
KR-ingar fagna eftir sigurinn góða á Val í kvöld. vísir/daníel

„Ég held að við séum búnir að sýna það núna í síðustu tveimur leikjum að við höfum nú ekkert gleymt öllu. Þetta er góð byrjun, á erfiðum útivelli,“ segir Pálmi Rafn Pálmason, leikmaður KR, eftir 1-0 sigurinn á Val.

Þrátt fyrir yfirburði KR á síðustu leiktíð var Val spáð Íslandsmeistaratitlinum. Pálmi sýnir þeim spádómum vissan skilning.

„Þeir eru með hörkulið og menn lesa kannski eitthvað í æfingaleiki. Við vorum ekki sannfærandi í okkar tveimur æfingaleikjum. En þetta er bara til þess að hafa gaman af. Okkur var ekki spáð titlinum í fyrra, við unnum þá, og vonandi verður þetta eins í ár. Þessi leikur gefur góð fyrirheit og við fögnum þessu, en svo er það bara þetta týpíska, næsti leikur. Þetta kemur okkur á toppinn í bili,“ segir Pálmi léttur.

Báðir miðverðir KR fóru meiddir af velli í leiknum og Pálmi meiddist sjálfur í fyrri hálfleik en harkaði af sér. Valsmenn misstu líka mann af velli vegna meiðsla og spurning hvort að hléið langa vegna kórónuveirufaraldursins, þar af sjö vikur án þess að menn mættu sparka bolta sín á milli, spili þar inn í?

„Arnór fékk reyndar högg á bakið fyrr í leiknum og það voru kannski einhver vöðvameiðsli, en annars voru þetta aðallega einhver högg í fætur, sem ég og Finnur Tómas fengu. Eitthvað sem skrifast ekki á þetta skrýtna undirbúningstímabil. En það var líka bara harka í þessum leik, og við því að búast að það detti 1-2 leikmenn út þegar svo er,“ segir Pálmi. Valsmenn voru fastir fyrir frá fyrstu mínútu leiksins og virtust angra KR-inga með því en Pálmi lét sér það í léttu rúmi liggja.

„Þeir eru harðir, alltaf, og við vitum það. Þeir fara hart inn í tæklingarnar og það er ekkert sem að kemur á óvart. En svo lengi sem að þetta er engin vitleysa og ekki eitthvað hættulegt þá er þetta bara fótbolti.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×