Umfjöllun og viðtöl: Valur - KR 0-1 | Meistararnir halda áfram þar sem frá var horfið

Sindri Sverrisson skrifar
Það var hart tekist á á Hlíðarenda í kvöld.
Það var hart tekist á á Hlíðarenda í kvöld. VÍSIR/DANÍEL

KR-ingar hófu Íslandsmótið í fótbolta þar sem frá var horfið síðasta haust þegar þeir unnu Valsmenn, liðið sem spáð er titlinum í ár, án þess að setja upp neina flugeldasýningu, 1-0 á Hlíðarenda.

Leikurinn var nokkuð kaflaskiptur í fyrri hálfleik þar sem KR-ingar byrjuðu af krafti en Valsmenn sóttu fljótt í sig veðrið. Patrick Pedersen fékk dauðafæri eftir háltíma leik en Beitir Ólafsson varði frá honum. Óskar Örn Hauksson skoraði hins vegar fyrsta mark Íslandsmótsins, á 39. mínútu, með góðum skalla þegar hann var aleinn á fjærstöng eftir fyrirgjöf Kennie Chopart.

Leikurinn var frekar bragðdaufur stóran hluta seinni hálfleiksins. KR-ingar lokuðu vel á allar tilraunir heimamanna til að komast í færi og það var helst á lokamínútunum sem að Valsmenn gerðust aðgangsharðir, en þeir gerðu ekki nóg til að fá eitthvað út úr leiknum.

Af hverju vann KR?

KR-ingar eru með uppskrift að því að vinna fótboltaleiki sem varla klikkar. Uppskriftina sem skilaði þeim Íslandsmeistaratitlinum með yfirburðum í fyrra. Þeir eru gríðarlega vel skipulagðir og agaðir, og hafa einstaklingsgæðin til að búa til mörk án þess að liggja á andstæðingunum eða þurfa til þess margar tilraunir.

Óskar Örn Hauksson skoraði sigurmark KR í kvöld með skalla. Hér er hann hins vegar að skalla frá eigin marki.VÍSIR/DANÍEL

Hverjir stóðu upp úr?

Kennie Chopart var beittur sem hægri bakvörður KR-inga, með fastar og góðar fyrirgjafir, og lagði upp sigurmarkið fyrir Óskar. Beitir Ólafsson var kóngur í ríki sínu í vítateig KR og greip nánast allar fyrirgjafir.

Hvað gekk illa?

Mönnum gekk sérstaklega illa að forðast meiðsli. Rasmus Christiansen og Arnór Sveinn Aðalsteinsson urðu báðir að fara af velli í fyrri hálfleik vegna meiðsla, Rasmus vegna höfuðmeiðsla en Arnór vegna bakmeiðsla að því er virtist. Finnur Tómas Pálmason, hinn aðalmiðvörður KR, meiddist svo í ökkla í seinni hálfleiknum og varð að fara af velli. Þetta óvenjulega undirbúningstímabil gæti verið að fara illa með menn hvað þetta varðar. Valsmenn verða svo auðvitað að gera betur í að opna varnir andstæðinganna. Það vantaði meiri hraða og að þeir létu KR-inga ekki króa sig af með boltann.

Hvað gerist næst?

KR tekur á móti HK í fyrsta heimaleik sínum á tímabilinu næsta laugardag en Valsmenn sækja nýliða Gróttu heim sama dag.

Rúnar Kristinsson má vera ánægður með sína menn í kvöld.VÍSIR/DANÍEL

Rúnar: Viljum skora fleiri mörk og vinna stærri sigra

„Svona spiluðum við líka síðasta sunnudag [gegn Víkingi]. Við erum skipulagðir, vitum hvað við viljum gera og þetta er nánast nákvæmlega sama lið og í fyrra. Það er engin breyting. Við vitum nákvæmlega hvað við viljum gera og viljum bara verða betri. Við erum að reyna að bæta okkar leik. Við viljum skora fleiri mörk og vinna öruggari sigra. En við erum á Valsvelli núna og erum ánægðir með að vinna 1-0. Ég sagði fyrir leik að eitt stig hefði verið nóg en við tókum öll þrjú vegna þess að það er agi í þessu liði. Menn vinna vinnuna sína. Þetta snýst um það, að hlaupa aukalega og vinna fyrir hvern annan,“ sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, á Stöð 2 Sport.

KR-ingar héldu Val vel í skefjum nánast í 90 mínútur, ef undan er skilið frábært færi sem Patrick Pedersen fékk þegar Beitir Ólafsson varði frá honum.

„Þeir fá þetta færi og við fáum þetta mark, en að öðru leyti held ég að þetta hafi verið frekar jafn leikur. Það var ekkert mikið í leiknum sem slíkt, hvorki af okkar hálfu né þeirra. Þeir fá nokkrar hornspyrnur og eru auðvitað hættulegir þar. Haukur Páll er frábær í loftinu og Orri Sigurður, Hedlund og Siggi Lár eru allt strákar sem geta hoppað og skallað boltann. Kaj Leo er líka frábær spyrnumaður. Þess vegna er ein hornspyrna alltaf hættuleg,“ sagði Rúnar.

Finnur Tómas og Arnór Sveinn eru líklega ekki mikið meiddir, að sögn þjálfarans.

„Ég held að Finnur Tómas hafi bara fengið högg á ökklann og hann hefur verið örlítið veikur fyrir þar. Arnór fékk eitthvað hnjask, eftir samstuð við Hauk Pál í byrjun leiks, og þegar hann tekur svo sprett seinna í leiknum fær hann annan hnykk í hreyfingunni. Þetta er eitthvað í bakinu en væntanlega ekkert alvarlegt.“

Beitir var duglegur að grípa fyrirgjafir Vals í leiknum og öryggið uppmálað:

„Beitir er náttúrulega frábær og tók hvern boltann á fætur öðrum sem kom inn í teiginn. Hann stóð hátt og ég veit nú ekki af hverju, ekki var ég að biðja hann um það, en kannski að hann og Kristján [Finnbogason, markmannsþjálfari] séu eitthvað að vinna í þessu en það gleður mig að hann skuli vera að lesa aðeins í leikinn. Hann er svolítið eins og Birkir Kristins, fer aldrei á leiki og þekkir eiginlega ekki gaurana í hinu liðinu, en hann er frábær þegar hann er þarna á milli stanganna og kóngur í ríki sínu þegar boltarnir koma svífandi inn í teiginn,“ sagði Rúnar.

Patrick Pedersen fékk dauðafæri í fyrri hálfleik fyrir Val en skot hans var varið.VÍSIR/DANÍEL

Heimir: Rasmus sagðist sjá allt tvöfalt

„Mér fannst við ekki nógu góðir í þessum leik. Við vorum sérstaklega í vandræðum með „seinni boltana“ á móti KR-ingum sem eru góðir í að yfirmanna svæðin. Þeir náðu að halda okkur í sömu svæðunum og við vorum ekki nógu góðir í að skipta á milli svæða. Þegar þessir hlutir eru ekki á hreinu á móti KR er erfitt að vinna þá,“ sagði Heimir Guðjónsson, þjálfari Vals, í viðtali á Stöð 2 Sport.

„Við sköpuðum samt sem áður 3-4 góð marktækifæri, þó að Beitir hafi svo sem ekki þurft að verja. Heilt yfir hefur sóknarleikurinn verið betri, en það gerist vegna þess að KR-ingar ná að halda okkur í sama svæðinu. Við náum ekki að færa boltann á milli vængja og þar með ekki að skapa nóg af færum. Mér fannst vanta hugrekki til að halda boltanum innan liðsins. Það lagaðist aðeins þegar Lasse og Kristinn Freyr komu inn á í seinni hálfleik,“ sagði Heimir.

Rasmus Christiansen meiddist á höfði í leiknum:

„Hann sagðist sjá allt tvöfalt og þá var ekki annað að gera en að taka hann af velli. Maður veit ekkert meira þegar um höfuðhögg er að ræða. Hann fer í skoðun og svo tökum við þetta þaðan,“ sagði Heimir.

Pálmi Rafn: Höfum nú ekkert gleymt öllu

„Ég held að við séum búnir að sýna það núna í síðustu tveimur leikjum að við höfum nú ekkert gleymt öllu. Þetta er góð byrjun, á erfiðum útivelli,“ segir Pálmi Rafn Pálmason, leikmaður KR, eftir 1-0 sigurinn á Val.

Þrátt fyrir yfirburði KR á síðustu leiktíð var Val spáð Íslandsmeistaratitlinum. Pálmi sýnir þeim spádómum vissan skilning.

„Þeir eru með hörkulið og menn lesa kannski eitthvað í æfingaleiki. Við vorum ekki sannfærandi í okkar tveimur æfingaleikjum. En þetta er bara til þess að hafa gaman af. Okkur var ekki spáð titlinum í fyrra, við unnum þá, og vonandi verður þetta eins í ár. Þessi leikur gefur góð fyrirheit og við fögnum þessu, en svo er það bara þetta týpíska, næsti leikur. Þetta kemur okkur á toppinn í bili,“ segir Pálmi léttur.

Báðir miðverðir KR fóru meiddir af velli í leiknum og Pálmi meiddist sjálfur í fyrri hálfleik en harkaði af sér. Valsmenn misstu líka mann af velli vegna meiðsla og spurning hvort að hléið langa vegna kórónuveirufaraldursins, þar af sjö vikur án þess að menn mættu sparka bolta sín á milli, spili þar inn í?

„Arnór fékk reyndar högg á bakið fyrr í leiknum og það voru kannski einhver vöðvameiðsli, en annars voru þetta aðallega einhver högg í fætur, sem ég og Finnur Tómas fengu. Eitthvað sem skrifast ekki á þetta skrýtna undirbúningstímabil. En það var líka bara harka í þessum leik, og við því að búast að það detti 1-2 leikmenn út þegar svo er,“ segir Pálmi. Valsmenn voru fastir fyrir frá fyrstu mínútu leiksins og virtust angra KR-inga með því en Pálmi lét sér það í léttu rúmi liggja.

„Þeir eru harðir, alltaf, og við vitum það. Þeir fara hart inn í tæklingarnar og það er ekkert sem að kemur á óvart. En svo lengi sem að þetta er engin vitlaust og ekki eitthvað hættulegt þá er þetta bara fótbolti.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira