Umfjöllun og viðtöl: Breiðablik - Grótta 3-0 | Breiðablik vann öruggan sigur á nýliðum Gróttu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kristinn Steindórsson fagnar fyrsta marki sínu í mörg ár.
Kristinn Steindórsson fagnar fyrsta marki sínu í mörg ár. Vísir/Daniel Thor

Breiðablik vann Gróttu nokkuð örugglega í fyrsta leik Seltirninga í efstu deild. Lokatölur 3-0 Blikum í vil. Líklega var þetta sá leikur sem beðið var eftir með hvað mesti eftirvæntingu en Grótta var að leika sinn fyrsta leik í efstu deild.

Þá var Óskar Hrafn Þorvaldsson - maðurinn sem kom Gróttu upp í efstu deild - orðinn þjálfari Gróttu og forveri hans í Kópavoginum, Ágúst Gylfason, var tekinn við Gróttu-liðinu.

Leikur kvöldsins var nánast leikur kattarins að músinni en það sást langar leiðir að Gróttu-menn voru að leika sinn fyrsta leik í efstu deild. Heimamenn höfðu ógnað töluvert áður en Viktor Karl Einarsson kom þeim yfir þegar nítján mínútur voru liðnar.

Í síðari hálfleik bættu þeir Thomas Mikkelsen og Kristinn Steindórsson við mörkum fyrir heimamenn en mörkin hefðu geta verið svo miklu fleiri. Allavega í þrígang varði Hákon Rafn Valdimarsson frábærlega í marki Gróttu ásamt því að hann varði fullt af öðrum skotum.

Einnig getur Mikkelsen verið ósáttur með aðstoðar dómara leiksins en alls var Mikkelsen dæmdur rangstæður þrívegis og í öll skiptin skoraði hann í þann mund sem flautan gall. Flaggið hefði líklega ekki átt að fara upp í allavegsa eitt af þeim þremur skiptum.

Þá fengu Blikar urmul af hálf færum og ljóst að þeir hefðu geta unnið mun stærri sigur á Kópavogsvelli í kvöld.

Það tók gestina langan tíma að losna við sviðskrekkinn og það var í raun ekki fyrr en Arnar Þór Helgason fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt í síðari hálfleik sem það lifnaði yfir gestunum. Þeirra sprækasti maður var Axel Sigurðarson og á öðrum degi hefði hann eflaust skorað en einu sinni varði Anton Ari Einarsson frábærlega frá honum og í annað skipti tókst Elfari Frey Helgasyni að bjarga með frábærri tæklingu.

Alls fóru átta gul spjöld á loft í leiknum í gær.Vísir/Daniel Thor

Af hverju vann Breiðablik?

Þeir eru einfaldlega með betra fótboltalið. Þeir voru frábærir á öllum sviðum í kvöld nema mögulega þegar kom að því að koma knettinum í netið en þeir skoruðu samt þrjú mörk. Það segir sitt.

Það er ljóst að ef Blikar halda dampi í sumar verða þeir illviðráðanlegir en að sama skapi mun Grótta eflaust ekki mæta með spennustigið jafn illa stillt inn í aðra leiki í sumar.

Hverjir stóðu upp úr?

Hjá Breiðablik voru bakverðir liðsins, Andri Rafn Yeoman og Davíð Ingvarsson, frábærir. Sama átti við um Viktor Karl Einarsson og Gísla Eyjólfsson á miðjunni. Það er í raun erfitt að taka einhvern út fyrir sviga en allt liðið átti mjög góðan leik.

Hjá Gróttu stóð Hákon Rafn upp úr í markinu en nokkrar af markvörslum hans í kvöld voru einfaldlega út í hött.

Hvað gekk illa?

Gróttu gekk illa að halda í boltann á löngum köflum og þá gekk Blikum illa að skora – þó svo að þeir hafi skorað þrjú mörk eins og hefur komið fram ítrekað.

Hvað gerist næst?

Grótta fær Val í heimsókn í fyrsta heimaleik liðsins í efstu deild þann 20. júní á meðan Breiðablik heimsækir Fylki í Lautina degi síðar.

Ágúst: Strákarnir skyldu allt eftir á vellinum

Ágúst þjálfaði Blika með góðum árangri en er nú þjálfari Gróttu.vísir/bára

„Strákarnir skyldu allt eftir á vellinum, ég var stoltur af þeim. Þeir börðust og þetta var eldskírn fyrir okkur og Blikar buðu okkur velkomna í Pepsi Max-deildina,“ sagði Ágúst Gylfason, þjálfari Gróttu að leik loknum.

Þetta var erfitt og sérstaklega eftir að við urðum manni færri en við sýndum hörku og þeir skoruðu rétt í lokin þriðja markið sem endanlega kláraði þetta. Er samt gríðarlega stoltur af liðinu og stuðningsmennirnir voru frábærir í dag og settu svip sinn á leikinn. Þegar við fórum að þora að halda boltanum meira þá vorum við góðir en vörðumst ágætlega gegn sterku Blika liði.“

„Flestir voru að spila sinn fyrsta leik og það sást kannski aðeins á mannskapnum. Mér fannst við spila ágætlega á köflum og sköpuðum okkur einhver færi en töpuðum sanngjarnt 3-0,“ sagði Gústi aðspurður út í hvort lið hans hefði verið of stressað í upphafi leiks.

„Ef menn eru hættir að hugsa um fótbolta og farnir að tala um einstaklinga er hægt að pakka saman,“ sagði Gústi að lokum varðandi umræðuna í aðdraganda leiksins um þjálfarana tvo.

Kristinn Steindórsson: Fannst þetta aldrei í hættu þannig lagað

„Að sjálfsögðu,“ svaraði Kristinn Steindórsson stuttorður um hvort það væri ekki þungu fargi af honum létt eftir að hafa skorað sitt fyrsta mark í langan tíma.

„Kannski eins og við bjuggumst við. Að þeir myndu reyna nýta skyndisóknir og föst leikatriði. Mér fannst að við hefðum geta skorað annað markið fyrr en þetta var aldrei í hættu þannig lagað,“ sagði Kristinn um gang leiksins.

„Alltaf gott að byrja á sigri. Það er alltaf fiðringur fyrir fyrsta leik, sérstaklega þegar maður er að spila á móti nýliðum sem vilja sanna sig og allt það. Fyrsti leikur, þrjú stig – það gerist ekki betra en það,“ sagði Kristinn að lokum.

Halldór: Við erum bara brattir 

„Ágætlega, þetta var erfitt. Við lendum manni undir og þá er þetta bara búið. Við tökum það góða með okkur úr þessum leik og höldum áfram,“ sagði Halldór Kristján Baldursson, fyrirliði Gróttu, að leik loknum.

„Það var pínu eins og sviðskrekkurinn hafi verið farinn þá og við fórum að láta boltann rúlla aðeins. Fáum þetta þriðja mark svo á okkur og ... já þetta var erfitt.“

„Við erum bara brattir. Við erum ekkert að fara taka þetta með okkur, þetta er frá og búnir að spila fyrsta leik. Valur heima næst og það verða enn fleiri stuðningsmenn þar,“ sagði Kristján að lokum og ljóst að Gróttu-menn eru vel stemmdir fyrir komandi sumri.

Hér að neðan má svo finna viðtal við Óskar Hrafn, þjálfar Breiðabliks.


Tengdar fréttir

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira