Umfjöllun og viðtöl: ÍA - KA 3-1 | Skagamenn byrja á sigri á KA annað árið í röð

Víkingur Goði Sigurðarson skrifar
visir-img
Vísir/Daníel Þór

ÍA vann KA 3-1 í fyrstu umferð Pepsi Max deildar karla í dag á Akranesi. Gestirnir komust snemma yfir en ÍA jöfnuðu í fyrri hálfleik og stýrðu umferðinni síðan alveg í seinni hálfleik.

Gestirnir byrjuðu leikinn betur og voru fljótir að komast yfir. Nökkvi Þeyr Þórisson skoraði fyrsta mark leiksins eftir frábæran tilbúning frá Ásgeiri Sigurgeirssyni. Ásgeir brunaði upp völlinn og refsaði heimamönnum sem fóru með báða hafsentana sína fram í innkasti.

KA voru með nokkrar ógnandi skyndisóknir á fyrstu tuttugu mínútum en þeir voru betra liðið í upphafi leiks. Þrír fremstu menn KA þeir Ásgeir, Nökkvi og Hallgrímur Mar voru fljótir upp og ungu bakverðir Skagamanna áttu erfitt með að halda í við þá. Þeir fengu nokkur ágæt færi að undanskildu markinu en það vantaði nokkrum sinnum bara lykilsendinguna.

ÍA voru duglegir að sækja upp vængina en Bjarki Steinn Bjarkason átti nokkra flotta spretti. Á 16. mínútu komst Bjarki fram fyrir Hallgrím Jónasson og var næstum því sloppinn einn í gegn en Ívar Örn Árnason náði að henda sér fyrir boltann áður en Bjarki tók skotið. Skagamenn tóku hægt og rólega yfir leikinn og skoruðu verðskuldað mark þegar tæplega hálftíma var búinn af leiknum.

Stefán Teitur Þórðarson jafnaði á 28. mínútu eftir stoðsendingu frá Viktori Jónssyni. Viktor fékk fyrirgjöf frá Tryggva Hrafn sem hann náði að pota aftur fyrir sig. Stefán Teitur var tilbúinn á bakvið Viktor og hamraði boltanum upp í þaknetið. Skagamenn stýrðu síðan spilinu nokkurn veginn út hálfleikinn en Ásgeir kom gestunum einu sinni í fínt færi eftir skyndisókn.

KA voru nálægt því að endurheimta forystuna í upphafi seinni hálfleiks. Aftur voru það Nökkvi og Ásgeir sem brunuðu upp völlinn en Ásgeir rétt missti af fyrirgjöf frá Nökkva en ef hann hefði náð til boltans hefði hann farið inn. Seinni hálfleikur byrjaði annars svipaður og fyrri. ÍA meira með boltann en KA með hættulegar skyndisóknir.

Stefán Teitur bætti við sínu öðru marki með þrumufleyg á 56. mínútu. Eftir það héldu Skagamenn áfram að sækja á fullu en þeir voru með vindinn í bakið og það var ansi hvasst uppi á skaga. ÍA voru fljótir að brjóta upp sóknir gestanna og héldu boltanum vel.

Tryggvi Hrafn fór á vítapunktinn og bætti við þriðja markinu fyrir heimamenn. Vítið var dæmt á Hallgrím Jónasson sem reif Viktor Jónsson niður. Viktor var við það að fara að skalla boltanum í netið eftir frábæra fyrirgjöf frá Brynjari Snæ Pálssyni. ÍA héldu áfram uppteknum hætti en það var allt ansi erfitt við sóknarleik KA.

Á 80. mínútu gerði Óli Stefán Flóventsson þjálfari KA athyglisverða skiptingu en hann tók út Ásgeir Sigurgeirsson og Nökkva Þey sem höfðu verið sprækustu leikmenn gestanna sóknarlega í leiknum. Þeim vantaði mörk á þessum tímapunkti og þessar skiptingar voru ekki líklegar til þess að bæta við mörkum. KA náðu nokkrum hálffærum undir lokin en voru aldrei nálægt því að skora.

Af hverju vann ÍA?

ÍA var betri fótboltaliðið í dag það er ekki flóknara en það. Þeir héldu boltanum miklu betur og stöðvuðu sóknir KA alltaf snemma. KA fengu einhverjir skyndisóknir en það var eina ógnin þeirra í leiknum.

Hverjir stóðu upp úr?

Stefán Teitur Þórðarsson var maður leiksins. Hann skoraði fyrstu 2 mörk Skagamanna og var mjög drjúgur á miðjunni allan leikinn. Viktor Jónsson átti líka flotta frammistöðu en hann var mjög ógnandi fram á við, fiskaði vítið og lagði upp fyrsta markið. Bjarki Steinn og Brynjar Snær átti líka flottan leik.

Bestir í liði KA voru örugglega Nökkvi og Ásgeir en þeir áttu fína spretti í skyndisóknum.

Hvað gekk illa?

Miðjan hjá KA hefur átt betri leiki það verður bara að segjast. Þeir áttu erfitt með að halda boltanum og náðu lítið búa til færi fyrir fremstu menn.

Hvað gerist næst?

Skagamenn fara í Hafnarfjörðinn og heimsækja FH eftir nákvæmlega viku. KA fá síðan Víkinga í heimsókn næsta laugardag en sá leikur verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Jóhannes Karl gat verið sáttur með úrslitin í dag.mynd/skjáskot

Jói Kalli: Það breytir því ekki að Nökkvi var rangstæður

„Ég er virkilega ánægður með vinnuframlagið okkar í dag og við áttum skemmtilega spilkafla inn á milli. Þetta var bara frábær sigur, ” sagði Jóhannes Karl Guðjónsson þjálfari ÍA hress eftir leik.

Skagamenn lenntu snemma undir í leiknum og voru í smá brasi með skyndisóknir KA í upphafi leiks. ÍA lenntu undir á 6. mínútu eftir mark frá Nökkva Þórissyni.

„Þeir hafa verið að spila þannig að þeir hafa verið mjög þéttir tilbaka og með þrjá öfluga frammi í að beita skyndisóknum. Við vorum klaufar í hvernig við viljum sækja upp völlinn og við fórum ekki alveg eftir því sem við ætluðum að gera til að koma í veg fyrir þessar skyndisóknir. Það breytir því ekki að Nökkvi var rangstæður þegar hann fær boltann inni í teig. ”

Í fyrra voru Skagamenn gagnrýndir fyrir að spila fótbolta þar sem þeir héldu boltanum lítið og voru mikið að sparka hátt og langt. Í vetur hefur verið talað um að þeir ætli að breyta um stefnu og það miðað við þennan leik eru þeir að standa við það.

„Við ætluðum að halda boltanum betur og við ætluðum að fá þrjá fremstu í KA liðinu til að pressa á okkur. Við gerðum það og það losaði um menn á vellinum. Það gekk mjög vel hjá okkur og við sköpuðum okkur góð færi.”

ÍA nýttu allar 5 skiptingarnar sínar í þessum leik og setti inn nokkra leikmenn sem eru fæddir eftir aldamótin. Þessir leikmenn komu sprækir inná og einn þeirra var meiri segja næstum því búinn að skora. Þetta eru strákar sem gætu alveg unnið sér inn stærra hlutverk.

„Eins og staðan er núna megum við setja 5 leikmenn inná. Það er gott að geta sett ferskar lappir inná og þetta eru ekki bara ungir strákar heldur líka góðir fótboltamenn. Mér finnst bara frábært að þeir fái tækifæri í að taka þátt í þessu með okkur.”

„Það er ekki spurning að þeir gætu fengið stærra hlutverk. Við sjáum það bara þegar leið á leikinn og þegar Gísli Laxdal kemst upp kantinn og gefur fyrir. Sigurður Hrannar skallar boltann rétt framhjá, þetta eru viljugir strákar en þeir eru líka góðir í fótbolta.”

Fyrsti leikur ÍA í fyrra var einmitt líka á móti KA á heimavelli og fór líka 3-1. Skemmtileg tilviljun og góð byrjun á tímabilinu en þó ekki fullkomin.

„Ég hefði viljað hafa þetta 3-0. En þrjú stigin telja engu að síður og þetta var góð byrjun hjá okkur.”

ÍA eiga ansi strembið leikjaplan en þeir eiga FH, KR og Val í næstu þremur leikjum. Skagamenn ætla samt ekki að láta það trufla sig alltof mikið.

„Pepsi Max deildin er bara þannig. Ég veit að þessi stóru lið hafa verið að slá svolítið um sig með að segja að deildin skiptist í tvennt. Við eigum eftir að sjá það gerast. Það geta öll lið unnið alla í þessari deild að mínu mati. Við eigum eftir að sjá fullt af óvæntum úrslitum en þetta eru auðvitað erfiðir andstæðingar í næstu leikjum hjá okkur. Næsti leikur er úti á móti FH og þar eru þrjú stig í boði. Við munum koma klárir í þann leik þegar hann byrjar.”

Lars Marcus Johansen og Arnar Már Guðjónsson voru hvorugir í hóp í dag en þeir hafa verið að glíma við meiðsli.

„Lars Marcus er gott sem tilbúinn. Við þorðum ekki að taka sénsinn á honum í dag en hann er orðinn gott sem 100% klár. Það er aðeins lengra í Arnar. Við bíðum auðvitað þolinmæður eftir honum en hann er mikilvægur leikmaður fyrir okkur. En við erum nokkuð góðir þegar við förum inn í FH leikinn með meiðslastöðuna á mannskapnum.”

Stefán Teitur Þórðarson var maður leiksins en hann skoraði 2 mörk og spilaði flottan leik.

„Stefán er náttúrulega frábær leikmaður eins og hann hefur sýnt og sannað. Hann hefði getað skorað fleiri mörk, hann kom sér oft í góðar stöður inni í teig. Það voru nokkur skipti þar sem menn náðu ekki að renna boltanum á hann þar sem hann hefði getað fullkomnað þrennuna en þetta var bara frábær frammistaða hjá Stefáni í dag.”

Óli Stefán Flóventsson var sáttur með 60-70% af frammistöðunni.MYND/STÖÐ 2

Óli Stefán: Ánægður með 60-70% af frammistöðunni

„Við vorum svo sem alveg á plani allan leikinn. Við hefðum bara átt að nýta stöðurnar sem við fengum betur. Við fengum trekk í trekk maður á mann stöður og góð upphlaup en ef þú nýtir ekki það, þá verður þetta alltaf frekar erfitt. Þeir jafna auðvitað með frekar góðu marki en við hefðum alveg getað gert mun betur þar. Mér fannst við alveg vera með þetta í góðu jafnvægi og ágætis séns þangað til að þriðja markið kom í seinni hálfleik, ” sagði Óli Stefán Flóventsson þjálfari KA svekktur eftir leik um frammistöðu sinna manna.

Leikurinn var jafn þangað til að fyrsta markið en kom síðan fóru ÍA að stýra umferðinni. KA menn voru óheppnir með vindinni í seinni hálfleik en stal nokkrum sendingum af þeim og gerði þeim lífið almennt leitt.

„Mér fannst þeir bara fínir þangað til að vítið kom. Þetta snéri óheppilega fyrir okkur en við vorum að berjast á móti hörðum vind í seinni hálfleik. Það afsakar samt ekki það að við eigum að gera betur í ákveðnum stöðum. Við vorum að ræða það hérna inni áðan að þegar þetta þriðja mark kemur á ég erfitt með að telja upp þar sem þeir komast í dauðafæri. Heilt yfir er ég ánægður með svona 60-70% af frammistöðunni í dag. Ógeðslega fúlt að tapa þessu.”

Nökkvi Þeyr og Ásgeir Sigurgeirsson voru oft nálægt því að komast einir í gegn en það vantaði oftast aðeins herslumuninn.

„Við fáum alveg frábærar stöður út úr góðu leikskipulagi þar á meðal þeir 2 og Hallgrímur Mar. Þar hefðum við getað gert miklu betur. Það hefði breytt miklu ef við hefðum náð öðru markinu en við náðum því ekki og við náðum ekki að gera nógu vel úr ákjósanlegri stöðu og það er erfitt síðan þegar þeir komast í gírinn. Aðallega þegar við fáum á okkur þetta þriðja mark þetta óþarfa víti sem við gefum þeim. Þá varð þetta rosalega erfitt síðustu tuttugu mínúturnar.”

Mikkel Qvist, Rodrigo Gomes, Guðmundur Steinn Hafsteinsson og Jibril Abubakar voru allir fjarri góðu gamni í dag af mismunandi ástæðum.

„Mikkel Qvist fékk smá tak aftan í læri. Rodrigo fékk síðan sýkingu í fótinn og þarf að liggja inni á sjúkrahúsi með sýklalyf í æð. Hann er sem betur fer að skána en hann er ekki leikfær ennþá.”

„Guðmundur Steinn er ekki með leikheimild ennþá og Djibril er meiddur. Þannig að það vantaði pínu í hópinn en það breytir engu. Við erum með fína stráka sem geta alveg stígið upp og þeir gerðu það bara í dag.”

Guðmundur Steinn Hafsteinsson gekk í vikunni til liðs við KA en það verður forvitnilegt að sjá hvernig Óli Stefán ætlar að púsla saman byrjunarliðinu sínu en hann er með marga möguleika fram á við.

„Það er fín breidd fram á við. Við getum gert ýmislegt. Það er hraði og líka styrkur hjá okkur. Við þurfum bara á þessu að halda í sumar að hafa sem flesta ferska og að minn hausverkur verði aðallega hver á að starta.”

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira