Íslenski boltinn

Pepsi Max kvenna eftir 2 daga: Pétur í mjög fámennan hóp með Loga Ólafs

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pétur Pétursson fagnar Íslandsmeistaratitlinum með Valskonum síðasta haust.
Pétur Pétursson fagnar Íslandsmeistaratitlinum með Valskonum síðasta haust. Vísir/Daníel Þór

Íslandsmótið í knattspyrnu byrjar með opnunarleik Pepsi Max deildar kvenna 12. júní. Það er mikil spenna fyrir því að boltinn fari aftur að rúlla en lengsta undirbúningstímabil í fótboltaheiminum varð enn lengra þökk sé kórónuveirunni.

Vísir ætlar að telja niður í fyrsta leik með því að rifja upp eitt og annað tengdu úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu. Í dag eru 2 dagar í fyrsta leikinn sem verður á milli Vals og KR á Hlíðarenda 12. júní næstkomandi.

Logi Ólafsson var stofnmeðlimur sérstaks klúbbs haustið 1991 þegar hann gerði karlalið Víkinga að Íslandsmeisturum. Logi varð þar með fyrsti þjálfarinn til að gera bæði karla- og kvennalið að Íslandsmeisturum.

Logi hafði tekið við Víkingsliðinu fyrir sumarið 1990 en þar á undan þjálfaði hann kvennalið Vals með frábærum árangri.

Undir hans stjórn höfðu Valskonur orðið Íslandsmeistarar tvö ár í röð 1988 og 1989 auk þess að vinna silfurverðlaun 1987 og tvo bikarmeistaratitla.

Logi Ólafsson gerði Skagamenn einnig að Íslandsmeisturum karla sumarið 1995 og er enn eini þjálfarinn sem hefur unnið Íslands- og bikarmeistarartitil hjá báðum kynjum.

Logi var einn í þessum sérstaka þjálfarahóp í 28 ár eða þar til að Pétur Pétursson fékk inngöngu síðasta haust.

Pétur gerði þá Valskonur að Íslandsmeisturum en Íslandsbikar kvenna hafði þá ekki komið á Hlíðarenda í níu ár.

Pétur Pétursson varð þarna að gera lið að Íslandsmeisturum í annað skiptið. Undir hans stjórn urðu KR-ingar Íslandsmeistarar karla sumarið 2000. Pétur var þá á fyrsta ári með KR-liðið en hann tók þegar Atli Eðvaldsson gerðist landsliðsþjálfari.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×