Íslenski boltinn

Sigurvin vonar að leikmenn ÍA hafi fengið áfallahjálp

Anton Ingi Leifsson skrifar
Stefán Teitur Þórðarson og Kolbeinn Þórðarson í baráttu um boltann á Kópavogsvellinum í gær.
Stefán Teitur Þórðarson og Kolbeinn Þórðarson í baráttu um boltann á Kópavogsvellinum í gær. Vísir/Daníel

Sigurvin Ólafsson, einn sparkspekingur Pepsi Max-markanna, vonast til þess að leikmenn ÍA hafi fengið áfallahjálp eftir síðustu leiktíð, slíkar voru sviptingarnar í gengi liðsins.

Eftir stórkostlega byrjun ÍA á síðustu leiktíð þá lak úr blöðrunni og rúmlega það. Eftir að hafa náð í fimm sigra og eitt jafntefli í fyrstu leikjunum vann liðið einungis einn sigur í síðustu tíu leikjunum og fékk sex stig af 30 mögulegum.

„Eftir svona tímabil þá vona ég að leikmenn ÍA hafi fengið áfallahjálp. Þetta eru þvílíkar hæðir og eins djúp lægð og þú getur séð. Hæðirnar sem þetta var komið í um miðjan júní. Einhverjir sparkspekingar voru byrjaðir að spá þeim titlinum og öllum fjandanum,“ sagði Sigurvin.

„Þeir stóðu sig vel hvað varðar grimmd, baráttu og frekju og allt þetta sem gaf þeim þessi stig. Þeir voru ekki að sundurspila neina. Svo bara duttu hin liðin í gang. Það er ekkert að fatta leikkerfið hjá þeim. Þeir sparka bara dálítið langt.“

„Sú taktík er ein af þessum taktísku aðferðum sem eru góð og gild. Að sparka langt og hlaupa á eftir því, ef þú ert með fljóta og grimma framherja, þá er það bara taktík eins og hver önnur taktík. Þeir spiluðu hana mjög vel en bæði misstu þeir móðinn. Þeir voru orðnir þreyttir á þessu. Að heyra í Jóa Kalla þarna á hliðarlínunni. Hann stýrði þeim eins og hann væri í FIFA,“ sagði Sigurvin.

Hluta af umræðunni um ÍA í síðasta upphitunarþætti Pepsi Max-deildarinnar má sjá hér að neðan.

Klippa: Sigurvin um ÍA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×