Íslenski boltinn

Mættur til Vopnafjarðar ári eftir að hafa verið orðaður við ensk úrvalsdeildarlið

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Nýjustu leikmenn Einherja á Vopnafirði.
Nýjustu leikmenn Einherja á Vopnafirði. Twitter/Einherji

Einherji hefur styrkt knattspyrnulið sitt fyrir átökin í 3.deildinni í sumar en Englendingarnir Ben King og Recoe Martin eru gengnir til liðs við félagið.

Recoe Martin kemur frá enska C-deildarliðinu MK Dons en fyrir ári síðan var hann orðaður við ensk úrvalsdeildarlið á borð við Southampton, Newcastle og Norwich.

Í grein enska fjölmiðilsins Mirror fyrir rúmu ári síðan er Martin sagður vera næsti Dele Alli en greinin er skrifuð í kjölfar þess að Martin gerði fimm mörk á 17 mínútum í leik með unglingaliði MK Dons gegn Leyton Orient. Er Alli uppalinn hjá MK Dons og sló svo í gegn með enska stórliðinu Tottenham.

Í þessari sömu grein Mirror segir frá áhuga úrvalsdeildarliðanna sem nefnd eru fyrr í fréttinni en nú rúmu ári síðar mun Martin spila á Vopnafirði og binda Einherjamenn miklar vonir við kappann.

Fjöldi erlendra leikmanna hefur spilað í neðri deildum Íslands undanfarna áratugi og þar hafa oft verið leikmenn með áhugaverðan bakgrunn.

Snemma á þessari öld gekk Bosníumaður að nafni Almir Cosic í raðir Leiknis Fáskrúðsfjarðar, sem þá lék í 3.deild, en tveimur árum áður hafði enska úrvalsdeildarliðið Newcastle lagt fram kauptilboð upp á eina milljón punda í Cosic. Gerði hann góða hluti á Fáskrúðsfirði áður en hann var fenginn til HK. Lék Cosic yfir 100 leiki hér á landi, flesta í neðri deildum.

Annað dæmi um leikmann sem hefur búið til feril í neðri deildum Íslands eftir að hafa verið spáð miklum frama á stærsta sviði knattspyrnunnar í ensku úrvalsdeildinni er Aaron Spear. Hann þótti einn efnilegasti leikmaður Newcastle á sínum yngri árum en mun leika með Kórdrengjum í 2.deildinni í sumar og á hátt í 100 leiki í Íslandsmóti, flesta í B og C deild.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.