Enski boltinn

Verður Ighalo áfram í Manchester borg?

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ighalo fagnar marki gegn LASK í Evrópudeildinni skömmu áður en allur fótbolti var settur á ís.
Ighalo fagnar marki gegn LASK í Evrópudeildinni skömmu áður en allur fótbolti var settur á ís. vísir/getty

Enska úrvalsdeildarfélagið Manchester United er við það að framlengja lánsamning Odion Ighalo sem er á láni frá kínverska félaginu Shanghai Shenhua. Núverandi lánsamningur félaganna rennur út á sunnudaginn eftir viku.

Ole Gunnar Solskjær, þjálfari Man United, vill halda nígeríska framherjanum í herbúðum sínum þangað til í janúar á næsta ári. Það þýðir að Ighalo myndi missa af meirihluta kínversku úrvalsdeildarinnar sem á að hefjast í júní.

Upphaflega vildi Shenhua aðeins lána Ighalo með þvi skilyrði að Man Utd myndi kaupa hann ef leikmaðurinn næði ákveðnum leikjafjölda. Nú er komið annað hljóð í strokkinn en óljóst er hvort Ighaldo geti farið aftur til Kína á næstunni vegna kórónufaraldursins. 

Hann myndi því hvort eð er missa af fjölda leikja liðsins og því gæti verið vænlegast að framlengja lánsdvöl hans í Manchester.

Sky Sports greinir frá. Þá er talið að kínverska félagið hafi boðið Ighalo nýjan samning á dögunum. Núverandi samningur hans við félagið rennur út í desember 2022 en sá nýi gildir til desember 2024 og myndi gefa Ighalo 400 þúsund pund á viku eða litlar 67 milljónir króna.

Ighalo lék átta leiki fyrir Manchester United eftir að hafa komið á láni í janúar á þessu ári. Skoraði hann fjögur mörk fyrir félagið en framherjanum stóra og stæðilega tókst ekki að skora í úrvalsdeildinni. Hann virðist nú fá frekari tækifæri til þess en hann er hugsaður sem varaskeifa fyrir þá Anthony Martial og Marcus Rashford.

Þá gefur hann Solskjær aðra valmöguleika í framlínunni en þessi þrítugi framherji er töluvert líkamlega sterkari en aðrir framherjar United liðsins.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.