Erlent

Twitter merkir tíst Trump sem misvísandi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, á viðburði fyrir sykursjúka í Washington í dag.
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, á viðburði fyrir sykursjúka í Washington í dag. Getty/Win McNamee

Samfélagsmiðillinn Twitter hefur í fyrsta sinn merkt tíst frá Donald Trump, Bandaríkjaforseta, sem misvísandi. Um er að ræða tvö tíst sem snúast um kjörseðla sem sendir eru heim til fólks.

Í tístunum hélt forsetinn því fram, án sannana, að kjörseðlar sem sendir eru heim til fólks leiði til „spilltra kosninga“ og kosningasvika.

Merkingin sem Twitter hefur sett á tístin er með upphrópunarmerki og linkur þar sem hægt er að fá nánari upplýsingar um kjörseðlana. Þar segir meðal annars:

„Trump hélt því ranglega fram að kjörseðlar sem sendir eru heim til fólks leiði til „spilltra kosninga“. Þeir sem hafa sannreynt þessa fullyrðingu segja hins vegar engar sannanir fyrir því að slíkir kjörseðlar tengist kosningasvikum.“

Skjáskot af tístum Trump.

Í frétt BBC um málið segir að þótt Twitter hafi heitið því að merkja betur þau tíst sem dreifa misvísandi og röngum upplýsingum þá hafi miðillinn hingað til ekki haft afskipti af Trump og hans tístum.

Þannig hefur Twitter ekki fjarlægt tíst forsetans um andlát Lori Klausutis árið 2001. Forsetinn hefur nokkrum sinnum tíst til þess að vekja athygli á samsæriskenningu þess efnis að sjónvarpsmaðurinn Joe Scarborough hjá MSNBC hafi myrt Klausutis.

Timothy Klausutis, ekkill Lori Klausutis, hefur beðið Twitter um að fjarlægja tístin. Fyrirtækið hefur neitað að gera það en vottað samúð vegna þess sársauka sem tíst forsetans hafa valdið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×