Erlent

Minkar hafa smitað minnst tvo af veirunni í Hollandi

Atli Ísleifsson skrifar
Alls er að finna einhver 155 minkabú í Hollandi og hafa minkar greinst með kórónuveirusmit á fjórum slíkum.
Alls er að finna einhver 155 minkabú í Hollandi og hafa minkar greinst með kórónuveirusmit á fjórum slíkum. Getty

Að minnsta kosti tveir menn hafa smitast af kórónuveirunni eftir að hafa komist í nánd við smitaða minka í Hollandi. Eru þetta fyrstu tilfelli slíkrar smitleiðar svo vitað sé.

Talsmenn hollenskra heilbrigðisyfirvalda hafa staðfest að líkurnar að smitast eftir þessari leið utan minkabúa séu hverfandi. Tilkynnt var í gær um að „mjög líklegt“ væri að minkur hafi smitað mann af kórónuveirunni og væri það annað slíka tilfelli á einni viku.

Alls er að finna einhver 155 minkabú í Hollandi og hafa minkar greinst með kórónuveirusmit á fjórum slíkum búum, að því er fram kemur í minnisblaði landbúnaðarráðherrans Carola Schouten til hollenska þingsins. Er talið að í þremur af búunum fjórum hafi smitaður maður smitað dýrin, þó að enn sé verið að rekja smitið í einu tilvikanna.

Í frétt Deutsche Welle segir að til standi að loka öllum minkabúum í landinu fyrir árið 2023 í samræmi við lög sem samþykkt voru nokkru fyrir faraldurinn.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.