Erlent

Lyfið sem Trump segist hafa tekið gæti aukið líkur á dauða Covid-sjúklinga

Andri Eysteinsson skrifar
Lyfið Hydroxychloroquine hefur verið lofað af Bandaríkjaforseta en er lastað í nýrri rannsókn.
Lyfið Hydroxychloroquine hefur verið lofað af Bandaríkjaforseta en er lastað í nýrri rannsókn. Getty/NurPhoto

Rannsókn bandarískra lækna á notagildi malaríulyfsins Hydroxychloroquine gegn Covid-19 sýkingu virðist benda til þess að líkur á andláti aukist ef lyfið er tekið.

Rannsóknin hefur verið birt á vef læknisfræðitímaritsins Lancet. Rannsóknin er samantekt á gögnum frá 671 sjúkrahúsi um víða veröld og var heilsa 96.000 sjúklinga skoðuð.

Í niðurstöðum kemur fram að dánarhlutfall á meðal sjúklinga sem var gefið malaríulyfið hydroxychloroquine eða chloroquine var hærra en á meðal þeirra sem ekki fengu lyfin. Guardian greinir frá.

Í hópi þeirra sem fengu annað lyfið var dánarhlutfallið 1/6. Einn af hverjum fimm sjúklingum sem tóku inn chloroquine ásamt sýklalyfi lést en einn af hverjum fjórum sem tók hydroxychloroquine og sýklalyf lést vegna veirunnar. Á meðal þeirra sjúklinga sem fengu lyfin ekki var dánarhlutfallið 1/11.

Þó er sá fyrirvari settur að ekki er um fullkomna rannsókn að ræða, breytur voru margar og er þar nefnt aldur, kyn, almenn heilsa og stig sýkingarinnar. Höfundar rannsóknarinnar segja þó að dauðsfallið sé enn hærra þegar búið er að gera ráð fyrir breytunum.

„Þetta er fyrsta stóra rannsóknin sem sýnir fram á sönnunargögn þess efnis að chloroquine eða hydroxychloroquine meðferð gegn Covid-19 sýkingu gerir sjúklingum ekki gott,“ sagði Mandeep R. Mehra prófessor við hjartasjúkdómadeild Brigham og Women‘s spítalans í Boston.

„Niðurstöður okkar gefa til kynna að notkun lyfsins gæti orðið til þess að auka líkur á alvarlegum hjartavandamálum og auknum líkum á dauða. Frekari rannsókna er þörf til að staðfesta niðurstöðurnar en þangað til mælum við gegn því að lyfið sé notað við Covid-19 sýkingum,“ sagði Mehra.

Bandaríkjastjórn og þá sérstaklega forsetinn sjálfur, Donald Trump, hefur lofað virkni lyfsins gegn veirunni og viðurkenndi forsetinn það á dögunum að hann taki lyfið sjálfur inn til verndar gegn mögulegu smiti.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.