Enski boltinn

Michael Owen: Nú geta hin liðin í Meistaradeildinni andað léttar þegar besta lið Evrópu er úr leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Owen í leikmannagöngunum á Anfield en hann hjálpaði félaginu að vinna nokkra af þessum titlum.
Michael Owen í leikmannagöngunum á Anfield en hann hjálpaði félaginu að vinna nokkra af þessum titlum. Getty/LFC Foundation/

Michael Owen, fyrrum leikmaður og Evrópumeistari með Liverpool, hrósaði liðinu mikið fyrir leikinn á móti Atletico Madrid í gærkvöldi þrátt fyrir að liðið hafi dottið út úr sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Liverpool liðið var í stórsókn allan leikinn á Anfield í gær og komst í 2-0 sem hefði dugað liðinu til að vinna sér sæti í átta liða úrslitunum. Atletico Madrid skoraði hins vegar þrjú mörk í framlengingunni, vann leikinn 3-2 og sló ríkjandi Evrópumeistara úr leik.

Þetta var leikur tveggja markavarða. Jan Oblak var í heimsklassa formi í marki Atletico Madrid og hélt sínu liði á floti en Adrian gerði risamistök sem breyttu öll til hins verra fyrir Liverpool.

Michael Owen ræddi við BT Sport eftir leikinn. „Það er engin spurning um það að öll stóru liðin í Evrópu hafa landað eftir eftir þessi úrslit og að Liverpool sé úr leik. Ég er í engum vafa um að Liverpool sé besta liðið í Evrópu á þessari stundu,“ sagði Michael Owen.

„Já, þeir unnu þetta tveggja leikja einvígi en Liverpool er samt sem áður besta liðið í Evrópu og liðið var stórkostlegt í 90 mínútur,“ sagði Owen.

Michael Owen er líka á því að úrslitin hefðu verið allt önnur ef Alisson hefði staðið í marki Liverpool liðsins í þessum leik.

„Ef Alisson spilar þá vinnur Liverpool. Eins og Rio [Ferdinand] sagði þá var voru markverðirnir munurinn á þessum tveimur liðum,“ sagði Owen.

Michael Owen er uppalinn hjá Liverpool og lék með félaginu frá 1996 til 2004. Hann skoraði 158 mörk í 297 leikjum með Liverpool og vann sex titla með félaginu.

Hann fór frá Liverpool til Real Madrid en var aldrei litinn sömu augum í Liverpool borg eftir að hann valdi fyrst að fara frekar til Newcastle þegar hann kom aftur heima til Englands og enn frekar eftir að hann samdi við Manchester United árið 2009.

Liverpool hefur aldrei unnið ensku úrvalsdeildina en Michael Owen vann hana með Manchester United vorið 2011.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×