Íslenski boltinn

Formaður knattspyrnudeildar KR vill að KSÍ aðstoði félögin í landinu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Páll Kristjánsson er hér fyrir miðju ásamt Kristni Kjærnested (t.h.) og Gylfa Dalmann Aðalsteinssyni formanni KR.
Páll Kristjánsson er hér fyrir miðju ásamt Kristni Kjærnested (t.h.) og Gylfa Dalmann Aðalsteinssyni formanni KR. Vísir/Twitter-síða KR

Páll Kristjánsson, nýkjörinn formaður knattspyrnudeildar KR er kórónufaraldurinn stöðvaði alla íþróttaiðkun hérlendis, var í viðtali við KR hlaðvarpið. Þar segir hann að rekstur knattspyrnudeildar Íslandsmeistara KR sé gjörbreyttur því sem áður var.

„Þetta eru búnir að vera mjög erfiðir og krefjandi þrír mánuðir – mars, apríl og maí. Það hafa verið stórar áskoranir en við höfum unnið mjög vel í okkar málum og búnir að taka verulega til í rekstrinum. Það er búið að endursemja við næstum allan meistaraflokk karla, sem er stærsti kostnaðarliður á rekstri deildarinnar,“ sagði Páll varðandi þær áskoranir sem hans hefðu beðið eftir að hann tók við sem formaður.

„Verið sérstakur tími að því leyti að við höfum bara verið að takast á við erfið mál en skemmtilegu málin eins og herrakvöld, kvennakvöld, stuðningsmannakvöld, æfingaleikir og Íslandsmót – maður hefur ekki fengið að njóta neins af því.“

„Ég get alveg sagt það,“ sagði Páll aðspurður hvort það hefði verið erfitt að endursemja við leikmannahóp meistaraflokks karla.

„Það er þó ekki af því að strákarnir hafa ekki verið ósanngjarnir, þvert á móti. Auðvitað eru menn missveigjanlegir og ég held það endurspeglist fyrst og fremst eftir fjölskylduaðstæðum hvers og eins,“ sagði Páll einnig.

Þá segist Páll ekki vera sáttur með knattspyrnusamband Íslands í kjölfar kórónufaraldursins.

„Ég tel KSÍ sitja á sjóðum sem á að ráðstafa til aðildarfélaganna. Menn virðast vera að bíða eftirhvað ÍSÍ ætlar að gera, hvað ætlar ríkisstjórnin að gera og hvað ætla hinir og þessir að gera. Við erum að fara inn í þriðju mánaðarmótin án þess að það sé eitthvað gert,“ sagði Páll verulega ósáttur.

„Mig langar að gera rekstur knattspyrnudeildar KR þannig að við eigum pening, við eigum alltaf sjóði til að reka félagið skynsamlega. Þegar við komumst í Evrópukeppni þá sé það bónus við það sem við eigum fyrirfram,“ sagði Páll einnig en í hlaðvarpinu fer hann yfir víðan völl.

Páll telur að KSÍ eigi að standa betur við bak félaganna í landinu og fjármagn sem KSÍ ætlar að setja í landslið eigi frekar að fara til félaganna þar sem lítið er um landsleiki á næstunni.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.