Erlent

Fleiri en 300.000 smitaðir í Rússlandi og aldrei fleiri dauðsföll í Brasilíu

Kjartan Kjartansson skrifar
Grímuklæddur starfsmaður matvöruverslunar í Moskvu sótthreinsar yfirborð.
Grímuklæddur starfsmaður matvöruverslunar í Moskvu sótthreinsar yfirborð. Vísir/EPA

Fjöldi smitaðra af nýju afbrigði kórónuveiru fór yfir 300.000 í Rússlandi í dag. Fulltrúi Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar segir ástandið þó að verða stöðugt þar. Í Brasilíu létust fleiri í gær en hafa áður gert á einum degi frá því að faraldurinn hóf innreið sína þar.

Þrátt fyrir að næstflest smit sem hafa greinst í heiminum séu í Rússlandi voru ný smit í gær þau fæstu þar frá 1. maí. Alls bættust 8.764 ný smit við. Samkvæmt opinberum tölum hafa 2.972 látist í Rússlandi sem er hlutfallslega mun færri en í Bandaríkjunum þar sem flest smit hafa greinst. Spurningar hafa vaknað um áreiðanleika tölfræði rússneskra yfirvalda en þau fullyrða á móti að þeirra aðferð til að telja dauðsföll sé réttari en annarra ríkja, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Melita Vujnovitsj, fulltrúi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) í Rússlandi, segir að hún telji að faraldurinn sé að ná jafnvægi í Rússlandi.

Í Brasilíu, þar sem smit er þau þriðju flestu í heiminum, hafa aldrei fleiri ný smit greinst eða fleiri látist á einum sólarhring en í gær. Þannig bættust við 17.408 ný smit og 1.179 dauðsföll á milli daga. Alls hafa nú rúmlega 271.600 manns smitast þar og tæplega 18.000 látist.

Lýðheilsusérfræðingar óttast að enn fleiri séu smitaðir og látnir í faraldrinum en opinberar tölur segja til um vegna þess hversu takmörkuð skimun hefur farið fram. Faraldurinn gæti þyrmt yfir heilbrigðiskerfið ef smituðum fjölgar áfram á næstu vikum. Jair Bolsonaro, forseti, hefur lítið gert til að koma í veg fyrir það en hann hefur gagnrýnt harðlega aðgerðir ríkis- og borgarstjóra til að hefta útbreiðslu veirunnar.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×