Erlent

Allir far­þegar þyrlunnar létust af völdum högg­á­verka

Sylvía Hall skrifar
Kobe Bryant og dóttir hans Gianna létust í slysinu.
Kobe Bryant og dóttir hans Gianna létust í slysinu. Vísir/Getty

Farþegarnir níu sem létust í þyrluslysi í Los Angeles í janúar síðastliðnum létust af völdum höggáverka þegar þyrlan skall í fjallshlíð. Á meðal þeirra sem létust voru feðginin Kobe Bryant og 13 ára dóttir hans Gianna.

Þetta kemur fram í krufningarskýrslu sem gerð var opinber á föstudag. Þar kemur jafnframt fram að þyrluflugmaðurinn hafi verið allsgáður þegar hann flaug með farþegana, sem voru allir á leið á körfuboltamót í Mamba-körfuboltaakademíunni í Thousand Oaks þar sem Gianna spilaði.

Í skýrslunni segir að það sé nánast öruggt að farþegarnir hafi látist samstundist. Höggið hafi verið svo mikið að það sé nær útilokað að einhver hafi lifað af eftir að þyrlan skall í hlíðinni.

Vannessa Bryant, ekkja Bryant, höfðaði mál og fór fram á skaðabætur vegna dauða Kobe og dóttur þeirra. Lögmenn hennar lögðu fram kæru í febrúar gegn fyrirtækinu sem gerði út þyrluna á þeim grundvelli að Ara Zobayan, flugmaður þyrlunnar sem dó einnig, hafi sýnt mikið skeytingarleysi í starfi sínu. Aðstæður hefðu verið slæmar, mikil þoka yfir Los Angeles og því skyggni verulega slæmt.

Þokan var svo slæm þennan dag að þyrlur lögreglu Los Angeles voru kyrrsettar en Zobayan bað um og fékk undanþágu til að fljúga af stað með farþega sína. Í kærunni segir að þyrlunni hafi verið flogið á tæplega 300 kílómetra hraða.

Zobayan var reynslumikill flugmaður og hafði oft flogið með Bryant og fjölskyldu hans. Vegna þess hraða sem þyrlan var á var höggið svo mikið að brak þyrlunnar dreifðist yfir svæði á stærð við fótboltavöll í fjallshlíðinni.


Tengdar fréttir

Vanessa Bryant fann óopnað bréf frá Kobe Bryant

Vanessa Bryant hélt upp á 38 ára afmælisdaginn sinn á mjög sérstakan hátt eða með því að opna bréf frá eiginmanni sínum Kobe Bryant sem lést í þyrluslysi 26. janúar síðastliðinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×