Körfubolti

Vanessa Bryant: Ég óska þess á hverjum degi að ég gæti farið aftur til þessa morguns

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vanessa Bryant við hlið Kobe Bryant og dætra þeirra Nataliu Diamante Bryant og Giönnu Maria-Onore Bryant.
Vanessa Bryant við hlið Kobe Bryant og dætra þeirra Nataliu Diamante Bryant og Giönnu Maria-Onore Bryant. Getty/Axelle/Bauer-Griffin

Vanessa Bryant, eiginkona Kobe Bryants heitins, minnsti mannsins síns í gær þegar fjögur ár voru frá því að Kobe kvaddi NBA-deildina með eftirminnilegum sextíu stiga leik.

Vanessa Bryant tjáði sig um Kobe Bryant, dóttur þeirra Giönnu, og missinn en þau fórust ásamt sjö öðrum í þyrluslysi 26. janúar síðastliðinn.

Kobe og Gianna voru á leið í körfuboltaleik hjá liði hinnar þrettán ára gömlu Giönnu en Kobe Bryant þjálfaði liðið. Hún þótti vera ein efnilegasta körfuboltakona Bandaríkjanna.

„Eiginmaður minn gaf sig allan í körfuboltann í tuttugu ár. Allt sem hann vildi var að fá að eyða tíma með mér og stelpunum sínum og bæta upp fyrir tapaðan tíma. Hann vildi vera til staðar á öllum stóru stundum stelpnanna okkar,“ skrifaði Vanessa Bryant.

„Hann fékk aðeins að njóta þriggja ára og níu mánaða eftir að skórnir fóru upp á hillu. Við eignuðust tvær dætur í viðbót, hann vann Óskarsverðlaun, hann opnaði Granity studios, varð fimmfaldur metsöluhöfundur og þjálfaði liðið hennar Giönnu á sama tíma,“ skrifaði Vanessa Bryant.

„Hún lagði mikið á sig og gaf allt sitt sjö daga vikunnar alveg eins og pabbi sinn. Ég óska þess á hverjum degi að ég gæti farið aftur til þessa morguns. Ég óska þess að þetta hafi bara verið venjulegur leikur hjá þeim þann 26. janúar. Lífið er ekki sanngjarnt. Þetta er svo glórulaust,“ skrifaði Vanessa Bryant.

Vanessa Bryant skrifaði pistilinn undir nafninu „Mamba Day“ og þar mátti einnig finna næstum því fimm mínútna myndband með svipmyndum frá leik Los Angeles Lakers og Utah Jazz þann 13. apríl 2016.

Það má sjá pistil Vanessu hér fyrir neðan.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.